Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-169

Íslenska ríkið (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)
gegn
A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Varaaðild
  • Sakarskipting
  • Sjúklingatrygging
  • Kröfugerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 26. nóvember 2025 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í máli nr. 695/2025: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál til heimtu bóta vegna líkamstjóns, aðallega á hendur Sjúkratryggingum Íslands en til vara á hendur leyfisbeiðanda. Í héraði var gerð sátt milli gagnaðila og aðalstefnda þannig að eftir stóð aðeins krafa um málskostnað þeirra á milli og kröfur á hendur varastefnda. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur aðila einkum að því hvort gagnaðili hafi mátt beina kröfum sínum að leyfisbeiðanda, varastefnda í héraði, á þann hátt sem hann gerði eða hvort vísa beri kröfum hans á hendur leyfisbeiðanda frá dómi.

4. Með úrskurði héraðsdóms var kröfum gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda vísað frá dómi af sjálfsdáðum, einkum með vísan til 7. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Landsréttur felldi úrskurðinn úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Landsréttur rakti að óumdeilt væri að kröfur gagnaðila í héraði á hendur leyfisbeiðanda og íslenska ríkinu hefðu átt rætur að rekja til sama atviks, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þá var litið til þess að gagnaðili gerði breytingar á kröfum sínum á hendur leyfisbeiðanda eftir að hann fékk hámarksbætur úr sjúklingatryggingu frá Sjúkratryggingum Íslands á grundvelli sáttar milli aðila. Landsréttur taldi að eins og samspili krafna á hendur aðal- og varastefnda væri háttað í málinu, sérstaklega með hliðsjón af þágildandi 7. gr. laga nr. 111/2000, væru ekki efni til að vísa kröfum gagnaðila frá dómi. Þar að auki taldi rétturinn enga ástæðu til að efast um að málatilbúnaður gagnaðila samkvæmt endanlegri kröfugerð hans samrýmdist framangreindu lagaákvæði.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og úrskurður Landsréttar sé rangur í mikilvægum atriðum. Hann telur mikilvægt að Hæstiréttur fjalli nánar um þá athugasemd sem sett var fram í dómi réttarins í máli nr. 40/2025 en leyfisbeiðandi telur að af henni verði ráðið að kröfugerð gagnaðila samræmist ekki lögum. Haldi úrskurður Landsréttar gildi sínu verði ekki séð að 7. gr. laga nr. 111/2000, sbr. nú 7. gr. laga nr. 47/2024 um sjúklingatryggingu, hafi raunhæfa þýðingu. Sú niðurstaða kynni einnig að leiða til óhagræðis og aukins kostnaðar. Þá er leyfisbeiðandi ósammála túlkun Landsréttar á 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi eða að öðru leyti sé fullnægt skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Í því sambandi skiptir ekki máli þótt vísa hefði átt málinu frá dómi eins og kröfugerð var háttað í öndverðu, enda er sá annmarki á málatilbúnaði gagnaðila ekki lengur fyrir hendi eftir að aðild Sjúkratrygginga Íslands að málinu féll niður með dómsátt. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.