Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-154
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjöf
- Lán
- Greiðsla
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 7. maí 2019 leitar Arnþrúður Karlsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 485/2018: Arnþrúður Karlsdóttir gegn Guðfinnu Aðalheiði Karlsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Guðfinna Aðalheiður Karlsdóttir leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort greiðslur samtals að fjárhæð 3.300.000 krónur, sem gagnaðili hafi lagt inn á bankareikning leyfisbeiðanda, hafi verið peningalán til hennar eða gjöf til styrktar rekstri útvarpsstöðvar í hennar eigu. Héraðsdómur taldi að leyfisbeiðandi hafi ekki fært sönnur fyrir því að um gjöf eða annan örlætisgerning væri að ræða og tók því til greina kröfu gagnaðila um endurgreiðslu fjárins. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hún til þess að þar sé ranglega lagt til grundvallar að meginregla íslensks réttar sé að sá sem taki við fé frá öðrum skuli teljast lántaki en ekki þiggjandi örlætis, án tillits til þess hvorum aðilanum standi nær að tryggja sér sönnun um staðhæfingu sína um slíkt eða málsatvika að öðru leyti. Telur leyfisbeiðandi að brýnt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um hvaða meginregla gildi á þessu sviði, sé slíkri reglu á annað borð til að dreifa. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.