Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-141

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Elíasi Shamsudin (Leifur Runólfsson lögmaður), Jónasi Shamsudin (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður) og Samúel Jóa Björgvinssyni (Jón Egilsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Vörslur
  • Refsiákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 1. október 2025 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 11. september sama ár í máli nr. 200/2025: Ákæruvaldið gegn Elíasi Shamsudin, Jónasi Shamsudin og Samúel Jóa Björgvinssyni. Gagnaðilarnir leggjast gegn beiðninni.

3. Gagnaðilar voru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 2.943,38 grömm af MDMA-kristöllum og 1.781 MDMA-töflu. Þá var gagnaðilum gefin að sök nánar tilgreind brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, vopnalögum nr. 16/1998 og umferðarlögum nr. 77/2019.

4. Með héraðsdómi voru ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru að því frátöldu að gagnaðilarnir Elías og Jónas voru sýknaðir af því að hafa haft MDMA-töflurnar í vörslum sínum. Refsing þeirra var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði en refsing gagnaðilans Samúels fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Leyfisbeiðandi áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist þess að refsing gagnaðila yrði þyngd. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um refsingu gagnaðilanna Elíasar og Jónasar en refsing Samúels ákveðin fangelsi í þrjú ár.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að beiðni um áfrýjunarleyfi lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um ákvörðun refsingar gagnaðila. Refsing þeirra hafi ekki verið í samræmi við dómaframkvæmd í sambærilegum málum hvort sem litið sé til tegundar eða magns efna. Leyfisbeiðandi telur að refsing í málinu ætti að vera á bilinu fimm til sjö ára fangelsi

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um refsingu kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.