Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-12

Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
A (Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 6. janúar 2020 leita Reykjavíkurborg og Sjóvá – Almennar tryggingar hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í málinu nr. 11/2019: A gegn Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir af völdum vinnuslyss. Gagnaðili slasaðist á fæti er hún steig út af hellulagðri gangstétt við Dalskóla í Úlfarsárdal og kom með hægri fótinn niður á viðskeytt niðurfallsrör sem stóð 10 sentímetra út úr gangstéttarkantinum með þeim afleiðingum að fóturinn bögglaðist undir henni og hlaut hún af því varanlegan skaða á hægri ökklalið. Héraðsdómur taldi slysið hafa stafað af óhappatilviki og voru leyfisbeiðendur sýknaðir af kröfum gagnaðila. Landsréttur taldi á hinn bóginn að Reykjavíkurborg bæri skaðabótaábyrgð á tjóni gagnaðila og var því fallist á viðurkenningarkröfur hennar um bótaskyldu leyfisbeiðenda. Vísaði rétturinn til þess að gættum þeim ríku skyldum sem hvíli á umráðamönnum fasteigna til að takmarka  slysahættu þar sem skólastarfsemi fer fram var talið að frágangur niðurfallsins á bílastæðinu hefði ekki verið forsvaranlegur og engu breytt þótt frágangurinn hefði verið til bráðabirgða.

Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng hvað varðar mat á orsökum tjóns gagnaðila og sök Reykjavíkurborgar sem umráðamanns og eiganda fasteignarinnar og vinnuveitanda gagnaðila. Áfrýjunarleyfisbeiðni þeirra lúti því eingöngu að fyrrnefndu mati Landsréttar og að það atriði sé fordæmisgefandi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt

gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.