Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-73
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Tryggingarbréf
- Fjárnám
- Vextir
- Fyrning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 27. febrúar 2020 leitar Hveratorg ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. janúar sama ár í málinu nr. 250/2019: Landsbankinn hf. gegn Hveratorgi ehf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda sé gert að þola að fjárnám verði gert vegna skuldar Ýrar fasteignafélags ehf. við gagnaðila að fjárhæð 49.682.337 króna auk dráttarvaxta inn í veðrétt samkvæmt nánar tilgreindu tryggingarbréfi áhvílandi á fasteign leyfisbeiðanda að Hverfisgötu 20 í Reykjavík. Málavextir eru þeir að GH fasteignir ehf. gaf út tryggingarbréf til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skulda sinna við Landsbanka Íslands hf., forvera gagnaðila, upphaflega að fjárhæð 52.800.000 krónur. Samkvæmt bréfinu var fasteignin Hverfisgata 20 sett að veði með 4. veðrétti í fasteigninni og uppfærslurétti. GH fasteignir ehf. og Landsbanki Íslands hf. gerðu svo með sér lánssamning um fjölmyntalán upphaflega að jafnvirði 44.000.000 króna. Með afsali 19. desember 2005 afsalaði GH fasteignir ehf. fasteigninni að Hverfisgötu 20 til Sýr ehf. en þar kom fram að kaupandi yfirtæki áhvílandi veðskuldir og var fyrrgreinds tryggingarbréfs að fjárhæð 52.800.000 krónur þar getið sem hafði þá uppfærst á 1. veðrétt fasteignarinnar. Með afsali 27. desember 2006 afsalaði Sýr ehf. fasteigninni að Hverfisgötu 20 til Ýrar eignarhaldsfélags, síðar Ýr fasteignafélag ehf., og var þar getið áðurgreinds tryggingarbréfs. Þann 24. ágúst 2011 afsalaði Ýr fasteignafélag ehf. eigninni að Hverfisgötu 20 til Eignasýslunnar ehf. Fyrir gerð þessa afsals á eigninni var að sögn gagnaðila ekki leitað til hans um það að hinn nýju eigandi fengi þannig að yfirtaka skuld samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi, né heldur kröfu að baki tryggingarbréfinu, og að hið sama ætti við um síðari eigendaskipti á fasteigninni. Ýr fasteignafélag ehf. var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2011 og fékkst ekkert upp í lýsta veðkröfu gagnaðila. Eignasýslan ehf. afsalaði umræddri fasteign til félagsins I 2020 ehf. þann 1. mars 2012. Þann 30. mars 2013 afsalaði það félag fasteigninni til leyfisbeiðanda sem í dag er þinglýstur eigandi hennar. Síðastgreindu þrír kaupsamningar voru ekki þinglýstir en í afsölum kom fram að á 1. veðrétti væri krafa Landsbankans frá 26. október 2005 en ekki var haft samband við gagnaðila til þess að óska eftir yfirtöku skulda að baki áhvílandi tryggingarbréfi hans.
Gagnaðili höfðaði fyrst mál gegn leyfisbeiðanda árið 2015 þar sem hann krafðist þess að honum yrði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi vegna hinnar fyrrgreindu skuldar. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda en í dómi Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 649/2016 var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem ekki hefði með skýrum hætti verið tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu bankinn krefðist að sér yrði heimilað að gera fjárnám í veðréttindum sínum. Í framhaldinu höfðaði gagnaðili málið að nýju eða þann 27. mars 2018.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um heimild hans til að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í fasteign í eigu leyfisbeiðanda. Í dómi héraðsdóms var talið að krafan bæri dráttarvexti frá höfðun síðara málsins, eða frá 27. mars 2018, með vísan til þess að rétt staða á veðkröfu gagnaðila gagnvart leyfisbeiðanda hefði ekki verið allskostar ljós gagnvart leyfisbeiðanda fyrr en með þeirri málsókn. Í Landsrétti var hins vegar talið að krafan bæri dráttarvexti frá þeim degi sem Ýr fasteignafélag ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi varðandi túlkun á því með hvaða hætti fyrningu kröfu verður rofin. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um að gagnaðili hafi rofið fyrningu kröfu sinnar með fyrri málshöfðun sé bersýnilega röng. Vísar leyfisbeiðandi til þess að hann sé ósammála túlkun Landsréttar á 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda þar sem hann telji að samkvæmt orðalagi lagaákvæðisins hljóti kröfueigandi að þurfa að setja kröfuna fram með einhverju móti en gagnaðili hafi í hinu fyrra máli ekki tilgreint í dómkröfu fyrir hvaða fjárkröfu hann krefðist fjárnáms inn í veðrétt sinn. Leyfisbeiðandi telur að skera þurfi úr um það hvenær kröfuhafi geti krafist dráttarvaxta og hve langt aftur í tímann slíkt sé hægt. Leyfisbeiðandi telur að gagnaðili hafi enga heimild haft til að krefjast dráttarvaxta á kröfu sína fyrr en hann beindi skýrri kröfu að honum og að það hafi hann ekki gert fyrr en með málsókn þann 27. mars 2018. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að um sé að ræða stórfellda hagsmuni fyrir hann enda feli niðurstaða Landsréttar það í sér að gagnaðili sé talinn eiga kröfu sem tryggð sé með tryggingarbréfinu sem nemi rúmlega tvöfaldri hærri fjárhæð en talið var með dómi héraðsdóms.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Er beiðninni því hafnað.