Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-100
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Frávísun frá héraðsdómi
- Viðurkenningarkrafa
- Fjármálafyrirtæki
- Áfrýjunarheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Með beiðni 12. mars 2019 leitar Grænamýri ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. febrúar sama ár í málinu nr. 483/2018: Grænamýri ehf. gegn Arion banka hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Arion banki hf. leggst gegn beiðninni. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu gagnaðila vegna tjóns sem leyfisbeiðandi kveðst hafa orðið fyrir út af tilteknum aðgerðum gagnaðila sem hafi orðið til þess að leyfisbeiðandi hafi tapað eignarhlut sínum í félaginu Sigurplasti ehf. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði á hinn bóginn málinu frá héraðsdómi á grundvelli þess að ekki væri nægilega leitt í ljós að leyfisbeiðandi hafi orðið fyrir tjóni þannig að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að formi til þar sem gagnaðili hafi ekki átt að geta komið kröfu sinni um frávísun að fyrir Landsrétti með öðrum hætti en að gagnáfrýja þangað dómi enda hafi málinu ekki verið vísað án kröfu frá héraðsdómi. Þá vísar hann til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Loks hafi málið verulegt almennt gildi um skýringu 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og til að fá skorið úr um þýðingu ákvæðis 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Dómur Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi sætir kæru til Hæstaréttar samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 30. október 2018 í máli nr. 22/2018, en ekki áfrýjun. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað.