Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-247
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Vátryggingarsamningur
- Húftrygging
- Stórkostlegt gáleysi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 27. nóvember 2018 leitar Jakob Ragnarsson slf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 2. sama mánaðar í málinu nr. 127/2018: Jakob Ragnarsson slf. gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vátryggingafélag Íslands hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um fullar bætur eftir tveimur samningum um húftryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns sem varð á vörubifreið og hleðslukrana í hans eigu þegar ökumaður bifreiðarinnar ók henni undir göngubrú á Vesturlandsvegi með hleðslukranann ófrágenginn og í svo hárri stöðu að hann rakst í brúna. Snýr ágreiningur aðila í fyrsta lagi að því hvort ökumaður bifreiðarinnar hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og 9. gr. sameiginlegra skilmála sem um vátryggingarnar giltu og í öðru lagi hvort Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi á þeim grundvelli verið heimilt að skerða bætur til leyfisbeiðanda um helming með vísan til ákvæða um samsömun í skilmálum trygginganna. Héraðsdómur sýknaði Vátryggingafélag Íslands hf. af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem hann sé í andstöðu við fjölmarga dóma Hæstaréttar sem staðfesti að gáleysi þurfi að vera á mjög háu stigi til að teljast stórkostlegt. Jafnframt hafi í dómaframkvæmd verið talið að mistök þurfi að vera mjög óvenjuleg eða sérstök svo að gáleysi geti talist stórkostlegt en svo hafi ekki verið í máli þessu. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, enda megi vænta þess í kjölfar dóms Landsréttar að stórkostlegt gáleysi verði metið með öðrum og rýmri hætti en Hæstiréttur hafi gert í dómaframkvæmd.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.