Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-36
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Áfrýjunarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 18. janúar 2019 leitar Félag múslima á Íslandi eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. desember 2018 í málinu nr. 271/2018: Félag múslima á Íslandi gegn Haraldi Helgasyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Haraldur Helgason leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu á reikningi að fjárhæð 2.612.606 krónur fyrir vinnu í tengslum við samkeppni um hönnun mosku í Reykjavík, en upp í reikninginn hafa verið greiddar alls 1.600.000 krónur. Héraðsdómur og Landsréttur tóku kröfu gagnaðila til greina. Beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi barst Hæstarétti 18. janúar 2019 og var þá liðinn fjögurra vikna frestur til að sækja um það samkvæmt 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991, en eftir 2. mgr. sömu lagagreinar getur rétturinn orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok þessa frests, enda sé dráttur á umsókn nægilega réttlættur. Leyfisbeiðandi vísar til þess að sem trúfélag búi hann við skipulag sem meðal annars feli í sér að öldungaráð innan hans geti eitt tekið ákvarðanir sem hafi í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar skuldbindingar. Dómur Landsréttar hafi verið kveðinn upp skömmu fyrir jól og hafi margir félagsmenn dvalið erlendis á þeim tíma. Að þessu gættu og vegna heilsufars formanns leyfisbeiðanda hafi ekki verið unnt að halda fund í öldungaráði fyrr en 17. janúar 2019.
Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi og ber að skýra það þröngt. Sá dráttur sem varð á umsókn leyfisbeiðanda hefur ekki verið nægilega réttlættur. Er beiðni hans um áfrýjunarleyfi því þegar af þessum sökum hafnað.