Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-12

Íslenska ríkið (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Stjórnarskrá
  • Lögmætisregla
  • Reglugerðarheimild
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 17. janúar 2024 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2023 í máli nr. E-508/2021: Reykjavíkurborg gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort heimilt hafi verið að útiloka gagnaðila frá úthlutun almennra framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla og framlaga vegna nýbúafræðslu samkvæmt þágildandi 13. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga á grundvelli 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002 um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla fyrir árin 2015 til 2019. Deila aðilar jafnframt um það hver orðið hefði úthlutunarfjárhæð Jöfnunarsjóðs til gagnaðila á tímabilinu.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 3.370.162.909 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Í dóminum kom fram að í ákvæðum laga nr. 4/1995 hefði fyrir gildistöku laga nr. 157/2019 hvergi verið að finna ákvæði um að ráðherra gæti með reglugerð fellt niður framlög til gagnaðila, á því tímabili sem dómkrafa hans tæki til. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ákvæði reglugerðar sem útilokuðu framlög til gagnaðila úr Jöfnunarsjóði væru ólögmæt þar sem þau færu í bága við lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar. Gagnaðili hefði því átt rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóði svo framarlega sem jákvæður mismunur væri á heildarútgjaldaþörf annars vegar og þeim hluta útsvarstekna hins vegar sem hefðu runnið til gagnaðila vegna reksturs grunnskóla. Sama ætti við um framlög til nýbúafræðslu. Skilyrði skaðabótareglna, meðal annars um saknæmi, ólögmæti og tjón væru því uppfyllt. Þá féllst héraðsdómur ekki á að tómlæti stæði því í vegi að krafa gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda næði fram að ganga. Þá hefði hugsanlegur endurkröfuréttur leyfisbeiðanda á hendur öðrum sveitarfélögum engin áhrif á rétt gagnaðila til greiðslu vangreiddra framlaga úr hendi leyfisbeiðanda. Þannig breytti samkomulag um tilteknar forsendur, sérstaða gagnaðila og möguleikar á fjármögnun og hagræðingu umfram önnur sveitarfélög því ekki að lagaheimild hefði skort til þess að undanskilja gagnaðila lögbundnum framlögum úr Jöfnunarsjóði. Var því fallist á að gagnaðili ætti fjárkröfu á hendur leyfisbeiðanda. Við útreikning kröfunnar þótti hvað varðaði framlög vegna nýbúafræðslu sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002 ekki óvarlegt að miða við þann fjölda nemenda sem leyfisbeiðandi tiltók. Sú fjárhæð kæmi hins vegar til frádráttar endanlegu fjármagni Jöfnunarsjóðs til almennra jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 351/2002. Við útreikning kröfu vegna almennra framlaga var ekki tekið tillit til einka- og sérskóla enda tekjugrunnur þeirra annar. Miðað var við alla nemendur í almennum grunnskólum þegar reiknað var vegið meðaltal enda væri það í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 351/2002 og sanngirnissjónarmið.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi einkum um beitingu 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og lagaáskilnaðarkröfu ákvæðisins sem og um þýðingu tómlætis. Málið hafi jafnframt almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna með hliðsjón af fyrirmælum 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá varði málið beitingu laga nr. 4/1995 og úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði. Að auki kunni niðurstaða í málinu að hafa almenna samfélagslega þýðingu. Loks séu fyrirhugaðar ýmsar breytingar á lögum og reglum sem varða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og sú vinna sé í biðstöðu eftir dóm héraðsdóms.

6. Af hálfu beggja aðila hefur því verið lýst yfir að hvorki sé uppi ágreiningur um sönnun né staðreyndir í málinu.

7. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.