Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-23
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skipulag
- Byggingarleyfi
- Mannvirki
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 14. janúar 2021 leitar Fróði ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. desember 2020 í máli nr. 733/2019: Fróði ehf. gegn þrotabúi iborgar ehf. og Leiguafli hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að ógilt verði með dómi nánar tilgreint byggingarleyfi sem var gefið út af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og að felld verði úr gildi samþykkt byggingarfulltrúans fyrir veitingu leyfisins sem og staðfesting umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs á þeirri samþykkt. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðanda. Í dóminum var því hafnað að beita ætti reglum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um álitaefnið þannig að skylt hefði verið að afla samþykkis leyfisbeiðanda fyrir þeim framkvæmdum sem heimilaðar voru. Jafnframt var því hafnað að skylt hefði verið samkvæmt almennum reglum um sérstaka sameign að afla samþykkis leyfisbeiðanda fyrir framkvæmdunum. Þá var hvorki fallist á að byggingarleyfið hefði stuðst við ólögmætt deiliskipulag né að það hefði farið í bága við skilyrði sem hefði þurft að uppfylla samkvæmt því. Loks var því hafnað að heimild Reykjavíkurborgar fyrir framkvæmdunum hefði verið bundin fyrrnefndu skilyrði um öflun samþykkis leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um inntak og eðli lóðarleigusamninga og þær heimildir sem felast í slíkum samningum fyrir einstaka afnotahafa, einkum í þeim tilfellum þar sem fleiri en eitt mannvirki er á einni og sömu lóð. Auk þess reyni í málinu á túlkun og skýringu á fjölmörgum ákvæðum laga nr. 26/1994 sem ekki hafi reynt á áður fyrir dómi og reglur er varði sérstaka sameign og heimildir einstakra eigenda mannvirkja á sameiginlegri leigulóð til framkvæmda. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig hafi Landsréttur ranglega hafnað því að reglur laga nr. 26/1994 ættu við í málinu, auk þess sem dómurinn hafi ranglega talið að framkvæmdir gagnaðila hafi einskorðast við lóðarhluta sem nýttur hafi verið undir mannvirki sem fyrir voru. Loks telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi framkvæmdir gagnaðila valdið honum verulegu tjóni.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.