Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-105
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Leigubifreiðar
- Afnotaréttur
- Deiliskipulag
- Umráð
- Stjórnvaldsákvörðun
- Lögvarðir hagsmunir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 2. júní 2025 leitar Hreyfill svf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 19. maí sama ár í máli nr. 302/2025: Hreyfill svf. gegn Reykjavíkurborg. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Aðdragandi málsins er að leyfisbeiðanda var tilkynnt með bréfi 21. október 2019 að á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar 25. september sama ár hefði verið samþykkt að heimila öllum sem hefðu starfsleyfi til leigubifreiðaaksturs að leggja í bifreiðastæði sem leyfisbeiðandi hafði fram að því haft einn til afnota. Leyfisbeiðanda var í kjölfarið gert að fjarlægja merkingar sínar en ella greiða kostnað vegna þess. Leyfisbeiðandi höfðaði mál gegn gagnaðila og krafðist aðallega að viðurkenndur yrði með dómi afnota- og umráðaréttur hans að nánar tilgreindum bifreiðastæðum.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun. Þar kom fram að í kröfugerð leyfisbeiðanda væri ekki afmarkað á neinn hátt til hvers kyns afnota- eða umráðaréttar hún ætti að ná. Slíkt hefði þó verið óhjákvæmilegt þar sem óumdeilt væri að leyfisbeiðandi myndi áfram njóta afnotaréttar af bifreiðastæðunum að frátöldum stæðum við Laugaveg að Hlemmi vegna breytts deiliskipulags. Var því ekki talið að kröfugerð leyfisbeiðanda væri til þess fallin að leiða ágreining málsaðila til lykta þótt á hana yrði fallist. Tók Landsréttur fram um stæði við Laugaveg að Hlemmi að kröfugerð leyfisbeiðanda um þau tæki ekki mið af tilfærslu þeirra sem leiddi af breyttu deiliskipulagi og hefði ekki verið hnekkt. Hefði framangreint óhjákvæmilega í för með sér að leyfisbeiðandi hefði ekki lögvarða hagsmuni af viðurkenningardómi um þann hluta aðalkröfunnar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hann hafi mikla og sérstaka hagsmuni af því að Hæstiréttur fjalli um hvenær stjórnvaldsákvörðun var tekin í málinu. Leyfisbeiðandi geti orðið fyrir réttarspjöllum meðal annars vegna fyrningar verði lagt til grundvallar að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin 25. september 2019 eins og gert hafi verið í úrskurði Landsréttar. Árétta verði í þessu sambandi að gagnaðili veitti leyfisbeiðanda ekki andmælarétt vegna þeirrar samþykktar sem hann segi nú vera ákvörðun málsins. Þá hafi gagnaðili jafnframt margoft staðfest á stjórnsýslustigi að ákvörðunin 16. janúar 2020 sé stjórnvaldsákvörðunin í málinu. Enn fremur byggir leyfisbeiðandi á að það hafi ríka þýðingu að fjallað sé um skýrleika kröfugerðar í tilviki stjórnvaldsákvarðana. Auk þess hafi málið fordæmisgildi á sviði eignaréttar vegna afnota- og umráðaréttinda. Til viðbótar sé réttur til aðgangs að dómstólum varinn af 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Af þeim sökum verði að málum ekki vísað frá dómi frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum nema í undantekningartilvikum en leyfisbeiðandi byggir á slíkir hagsmunir séu svo sannarlega til staðar. Að lokum er vakin athygli á því að einn dómara Landsréttar í málinu var borgarlögmaður árin 2007 til 2017. Í málinu hafi leyfisbeiðandi lagt fram gögn úr stjórnsýslu borgarinnar frá þeim tíma.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.