Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-6

Glaucia Da Conceicao Pereira (sjálf)
gegn
Efstasundi 100, húsfélag (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Frávísun
  • Vanreifun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 4. janúar 2024 leitar Glaucia Da Conceicao Pereira leyfis Hæstaréttar, á grundvelli a-liðar 1. mgr. og 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 21. desember 2023 í máli nr. 686/2023: Glaucia Da Conceicao Pereira gegn Efstasundi 100, húsfélagi. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að ákvörðun sýslumanns um nauðungarsölu á fasteign leyfisbeiðanda en hún skaut ákvörðuninni til héraðsdóms.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa frá kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu nauðungarsölunnar. Landsréttur rakti skilyrði 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og vísaði til þess að heimild greinarinnar væri að meginreglu aðeins veitt gerðarbeiðendum en aðrir geti nýtt sér heimildina með samþykki gerðarbeiðanda, hvort sem um gerðarþola er að ræða, rétthafa í eign eða þriðja mann. Í dómi Landsréttar kom fram að óumdeilt væri að leyfisbeiðandi hefði ekki fengið heimild gagnaðila til þess. Leyfisbeiðanda hefði því brostið heimild til að krefjast þess að nauðungarsalan yrði stöðvuð en auk þess hefði hana skort lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirrar kröfu, enda nauðungarsalan afstaðin. Loks tók Landsréttur fram að ef litið yrði á bréf leyfisbeiðanda til héraðsdóms sem tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 hefði hún engan veginn fullnægt þeim skýrleika í framsetningu kröfugerðar og málsástæðna sem við ættu og var því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni meðal annars með vísan til þess að að málið snúist um óhlutdrægni dómstóla og hafi verið dæmt í Landsrétti af dómurum sem ekki hafi verið réttilega skipaðir. Málið hafi af sömu ástæðum fordæmisgildi. Þá sé hin kærða dómsathöfn bersýnilega röng að formi og efni. Jafnframt telur leyfisbeiðandi dómstóla ekki hafa gætt að réttindum hennar við meðferð málsins.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sem hér á við, sbr. 2. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 3. málslið 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Kæruheimild verður ekki sótt í a-lið 1. mgr. sömu greinar þar sem Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um frávísun. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.