Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-199

Valbjörg ehf. (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)
gegn
þrotabúi G16 ehf. (Tryggvi Agnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Starfsmannaleiga
  • Aðildarskortur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 14. júlí 2020 leitar Valbjörg ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. júní sama ár í máli nr. 464/2019: Þrotabú G16 ehf. gegn Valbjörgu ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skuldar, vegna leigu starfsmanna við byggingarframkvæmdir, úr hendi gagnaðila og félaginu Aza ehf. Leyfisbeiðandi byggir kröfuna á samningi sem hann gerði við félagið G16 ehf. 19. apríl 2017 um að það leigði fimm starfsmenn til starfa við byggingarframkvæmdir. Samningurinn var undirritaður af fyrirsvarsmanni G16 ehf. sem einnig var fyrirsvarsmaður Aza ehf. Fyrir liggur að reikningar voru gefnir út á síðarnefnda félagið og greiddir af því. Með héraðsdómi voru bæði gagnaðili og Aza ehf. dæmd óskipt til að greiða leyfisbeiðanda skuldina vegna leigu starfsmannanna. Bú Aza ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta eftir að héraðsdómur gekk og var málinu ekki áfrýjað til Landsréttar af þess hálfu.

Eftir áfrýjun málsins var bú G16 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók gagnaðili þá við aðild að málinu. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að munnlegur samningur hefði komist á milli leyfisbeiðanda og Aza ehf. um leigu starfsmanna auk þess sem fyrir lægi að verkefni starfsmanna leyfisbeiðanda hefðu að öllu leyti verið í þágu þess félags en ekki gagnaðila. Dómurinn taldi leyfisbeiðanda ekki hafa fært sönnur á að viðskipti Aza ehf. um leigu starfsmannanna hefðu verið á ábyrgð gagnaðila þannig að fallast bæri á óskipta ábyrgð þeirra. Var gagnaðili því sýknaður á grundvelli aðildarskorts.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda sé niðurstaða dómsins í andstöðu við reglur kröfuréttar um skuldaraskipti. Leyfisbeiðandi vísar til þess að engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að hann hafi leyst gagnaðila undan efnaskyldu sinni samkvæmt fyrrgreindum samningi. Í niðurstöðu Landsréttar hafi ranglega verið lögð til grundvallar orð fyrirsvarsmanns gagnaðila um að hann hefði leyst gagnaðila undan skyldu. Það sé í andstöðu við meginreglur kröfuréttar um að yfirlýsing um lausn undan skyldu þurfi að vera gefin af hálfu kröfuhafans. Þá hafi Landsréttur alfarið byggt sönnunargildi framburðar fyrirsvarsmanns gagnaðila á skýrslu hans í héraði í andstöðu við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.