Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-89
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Sönnunarmat
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 24. febrúar 2020 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. janúar sama ár í málinu nr. 907/2018: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sambýliskonu sinnar með því að hafa tvisvar haft við hana önnur kynferðismök en samræði. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa skoðað í farsíma sínum 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan hátt. Var sú háttsemi talin varða við 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga. Loks var leyfisbeiðandi fundin sekur um fíkniefnalagabrot og sú háttsemi talin varða við tilgreind ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár. Með hinum áfrýjaða héraðsdómi frá 15. október 2018 hafði leyfisbeiðandi verið sýknaður af fyrsta ákærulinum en sakfelldur samkvæmt 2. og 3. lið ákæru.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann sérstaklega til lokamálsliðar ákvæðisins þar sem hann hafi samkvæmt dómi Landsréttar verið sakfelldur fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni en sýknaður af þeim ákærulið í héraðsdómi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi umtalsvert fordæmisgildi og að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að Landsréttur hafi í dómi sínum beitt aðferðum við sönnunarmat sem ekki eigi sér stoð í réttarframkvæmd eða viðurkenndum reglum sakamálaréttarfars. Vísar hann til þess að í forsendum dóms Landsréttar sé við það stuðst um sakarmat samkvæmt 1. ákærulið að dómnum þyki sakargiftir samkvæmt 2. ákærulið sannaðar. Telur leyfisbeiðandi að ekki sé heimilt að rökstyðja mat varðandi sönnun sakargifta með því að beita slíkri „smitsönnun“ á milli ákæruliða, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi niðurstaða Landsréttar um að framburður hans hafi verið ótrúverðugur eingöngu verið leidd af því að hann hafi verið annar en framburður brotaþola sem rétturinn hafi talið trúverðugan og hafi því ekki verið lagt sjálfstætt mat á framburð leyfisbeiðanda. Vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar um að ekki nægi til að unnt sé að dæma refsiáfall gegn neitun sakaðs manns framburður brotaþola sem ekki hafi stoð í skýrslum annarra vitna eða í hlutrænum sönnunargögnum. Í dómi Landsréttar sé vikið frá viðurkenndum sönnunarreglum þess efnis að í tilviki kynferðisbrotamála nægi til sakaráfellis að brotaþoli beri fram sakir á hendur manni með framburði sem teljist trúverðugur að mati dómsins.
Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Verður að líta svo á að úrlausn um þá aðferð sem viðhöfð er í dómi Landsréttar að telja sakfellingu fyrir tiltekin ákærulið geta haft áhrif við mat á sönnunargildi framburðar vegna annars ákæruliðar gæti haft verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um í skilningi 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á beiðni leyfisbeiðanda um heimild til að áfrýja framangreindum dómi Landsréttar.