Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-356

Jóhannes Sigurðsson, Magnús B. Jóhannesson og Sigurður Eyberg Jóhannesson (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)
gegn
Einari Jónssyni og Drífu Friðgeirsdóttur (Magnús Guðlaugsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lausafjárkaup
  • Afhending
  • Skaðabætur
  • Sönnunarbyrði
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 11. desember 2019 leita Jóhannes Sigurðsson, Magnús B. Jóhannesson og Sigurður Eyberg Jóhannesson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. nóvember sama ár í málinu nr. 38/2019: Jóhannes Sigurðsson, Magnús B. Jóhannesson og Sigurður Eyberg Jóhannesson gegn Drífu Friðgeirsdóttur og Einari Jónssyni og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Drífa Friðgeirsdóttir og Einar Jónsson leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um greiðslu skaðabóta vegna vanefnda gagnaðila á samningi um kaup leyfisbeiðenda á jörðinni Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð. Ágreiningur aðila snýr að því hvort gagnaðilum hafi samkvæmt samningnum borið skylda til að afhenda leyfisbeiðendum 150 heyrúllur að Hróðnýjarstöðum eða hvort þeim hafi verið heimilt að skilja þær eftir á túni Múlagrundar í Saurbæ leyfisbeiðendum til ráðstöfunar en óumdeilt er í málinu að leyfisbeiðendur eru eigendur heyrúllanna. Héraðsdómur tók til greina kröfu leyfisbeiðenda um greiðslu skaðabóta sem svöruðu til kostnaðar af flutningi heyrúllanna til Hróðnýjarstaða. Landsréttur sýknaði á hinn bóginn gagnaðila af kröfu leyfisbeiðenda og taldi að með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup yrði að leggja til grundvallar að leyfisbeiðendur hefðu er samningur komst á við gagnaðila vitað að hey sem kynni að koma af öðrum jörðum en túnum í landi Hróðnýjarstaða væri að finna á þeim jörðum. Hefði afhendingarstaður heyrúllanna því verið að Múlagrund.

Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísa þeir til þess að þar hafi ranglega verið lagt til grundvallar að leyfisbeiðendur hafi haft vitneskju um staðsetningu heyrúllanna þegar kaupin voru gerð, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/2000. Þeir hafi ekki fengið þær upplýsingar frá gagnaðilum fyrr en degi fyrir afsalsfund eða um fimm mánuðum eftir kaupin. Þá hvíli sönnunarbyrði fyrir því að afhenda hafi átt heyrúllurnar á öðrum stað en lögbundnum afhendingarstað á seljendum en ekki kaupendum eins og Landsréttur hafi lagt til grundvallar. Telja leyfisbeiðendur að úrlausn málsins hafi fordæmisgildi um túlkun framangreinds lagaákvæðis. Þá hafi bæði héraðsdómur og Landsréttur lagt til grundvallar að leyfisbeiðendum hafi borið að takmarka tjón sitt án þess að þeirri málsástæðu hafi verið hreyft í málinu. Telja leyfisbeiðendur að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant af þessum sökum, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og málatilbúnaði leyfisbeiðenda háttar er að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur réttarins sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.