Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-147

Barnaverndarþjónusta B (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)
gegn
A (Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður )

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 16. október 2025 leitar barnaverndarþjónusta B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 25. september sama ár í máli nr. 205/2025: A gegn barnaverndarþjónustu B og til réttargæslu C og D. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta varðar kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðili verði svipt forsjá tveggja sona sinna á grundvelli a-, c- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

4. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness var fallist á kröfu leyfisbeiðanda. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknuð af kröfu leyfisbeiðanda um að hún yrði svipt forsjá yngri sonar síns en staðfest niðurstaða héraðsdóms um hún skyldi svipt forsjá þess eldri.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í málinu reyni á túlkun skilyrða a-, c- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga auk 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. laganna. Þá telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Landsréttur hafi ekki fallist á dómkvaðningu yfirmatsmanna en kjósi þrátt fyrir það að virða niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns að vettugi. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Það hafi ekki verið rétt nálgun að einblína eingöngu á þau stuðningsúrræði sem beinst hafi að yngri drengnum sérstaklega enda ljóst að vandinn hafi legið hjá gagnaðila og hún átt að njóta góðs af þeim fjölmörgu stuðningsúrræðum sem reynd höfðu verið um langt árabil.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess kunni að hafa verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.