Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-110

Guðjón Egill Ingólfsson, Gunnar Ólafur Bjarnason, Helga Hauksdóttir, Halldór Kristján Ingólfsson, Ingunn Hinriksdóttir, Lára Valgerður Ingólfsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Þórhildur Hrönn Ingólfsdóttir og Valfríður Möller (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)
gegn
Felix von Longo-Liebenstein, Nýja húsinu Ófeigsfirði, Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur, Gunnari Gauki Magnússyni, Halldóru Hrólfsdóttur, Hallvarði E. Aspelund, Haraldi Sveinbjörnssyni, Pétri Guðmundssyni, Valdimar Steinþórssyni, Þóru Hrólfsdóttur, Halldóri Árna Gunnarssyni, Sverri Geir Gunnarssyni, Þórunni Hönnu Gunnarsdóttur (Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður), Sæmörk ehf. (enginn), Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Gunnarsdóttur, Svanhildi Guðmundsdóttur (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður), Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur (Vífill Harðarson lögmaður), og til réttargæslu Fornaseli ehf. (enginn) og íslenska ríkinu (Andri Andrason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Landamerki
  • Sönnun
  • Málskostnaður
  • Samaðild
  • Sameign
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 23. júlí 2024 leita Guðjón Egill Ingólfsson, Gunnar Ólafur Bjarnason, Helga Hauksdóttir, Halldór Kristján Ingólfsson, Ingunn Hinriksdóttir, Lára Valgerður Ingólfsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Þórhildur Hrönn Ingólfsdóttir og Valfríður Möller leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. júní 2024 í máli nr. 488/2022: Guðjón Egill Ingólfsson, Gunnar Ólafur Bjarnason, Helga Hauksdóttir, Halldór Kristján Ingólfsson, Ingunn Hinriksdóttir, Lára Valgerður Ingólfsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Þórhildur Hrönn Ingólfsdóttir og Valfríður Möller. gegn Felix von Longo-Liebenstein, Nýja húsinu Ófeigsfirði, Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur, Gunnari Gauki Magnússyni, Halldóru Hrólfsdóttur, Hallvarði E. Aspelund, Haraldi Sveinbjörnssyni, Pétri Guðmundssyni, Valdimar Steinþórssyni, Þóru Hrólfsdóttur, Halldóri Árna Gunnarssyni, Sverri Geir Gunnarssyni, Þórunni Hönnu Gunnarsdóttur, Sæmörk ehf., Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Gunnarsdóttur, Svanhildi Guðmundsdóttur, Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur, og til réttargæslu Fornaseli ehf. og íslenska ríkinu. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni að undanskildu einkahlutafélaginu Sæmörk sem hefur ekki látið beiðnina til sín taka. Réttargæslustefndi Fornasel ehf. tekur ekki afstöðu til beiðninnar en réttargæslustefndi íslenska ríkið telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 kunni að vera uppfyllt.

3. Mál þetta varðar landamerki jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi gagnvart nálægum jörðum. Ágreiningur er einkum um landamerki gagnvart jörðunum Engjanesi og Ófeigsfirði. Leyfisbeiðendur eru eigendur 61% hluta Drangavíkur en gagnaðilar eru sameigendur þeirra að jörðinni og eigendur nærliggjandi jarða.

4. Landsréttur staðfesti héraðsdóm um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda um tiltekin landamerki og staðfesti niðurstöðu dómsins um landamerki jarðanna Engjaness og Drangavíkur. Héraðsdómur var þó ekki staðfestur um greiðslu gagnaðila Ásdísar Virk Sigtryggsdóttur, Karls Sigtryggssonar og Sigríðar Sveinsdóttur á málskostnaði í héraði þar sem aðrir gagnaðilar féllu frá málskostnaðarkröfu í héraði á hendur þeim við flutnings málsins fyrir Landsrétti. Þau höfðu verið meðal stefnenda í héraði en stóðu ekki að áfrýjun málsins til Landsréttar. Í málinu var ágreiningslaust að leggja bæri merkjalýsingar landamerkjabréfa jarðanna til grundvallar niðurstöðu þess. Þá tók Landsréttur fram með vísan til 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að ekki yrði fallist á kröfur leyfisbeiðenda í málinu nema sýnt væri að ósamrýmanlegar kröfur og yfirlýsingar sameigenda þeirra að Drangavík væru rangar. Landsréttur taldi að við skýringu á landamerkjabréfum jarðanna væri rétt að leggja til grundvallar að Eyvindarfjarðará réði merkjum Ófeigsfjarðar frá upptökum til ósa. Þá var við skýringu orðanna „eptir hæstu fjallsbrún“ í landamerkjabréfi Engjaness lagt til grundvallar að átt væri við vatnaskil. Síðari tíma gögn voru ekki talin geta breytt því hvernig skýra bæri landamerkjabréf jarðanna. Landsréttur taldi einnig að ráða mætti af gögnum frá vatnamælingasviði Veðurstofu Íslands að kröfugerð gagnaðila Felix von Longo-Liebenstein um merki jarðanna Engjaness og Drangavíkur tæki mið af vatnaskilum.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem héraðsdómur, sem staðfestur var efnislega í Landsrétti, byggi í grundvallaratriðum á skýringu á 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 og málið hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun þess ákvæðis. Niðurstaða dómsins sé reist á því að sumir gagnaðila, sem séu meðeigendur að Drangavík og tóku afstöðu með kröfum eigenda Engjaness og Ófeigsfjarðar um landamörk, hafi með yfirlýsingum sínum „varpað allri sönnunarbyrði í málinu“ á leyfisbeiðendur. Öll úrlausn málsins hafi því ráðist af rangri lagatúlkun. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að með dóminum hafi verið viðurkennt að land Drangavíkur sé umtalsvert minna en þeir hugðu og málið varði því verulega hagsmuni þeirra. Þá eigi niðurstaða réttarins um landamerki Engjaness sér enga stoð í orðalagi landamerkjabréfs jarðarinnar. Að endingu byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og vísa um það til fyrrgreindra sjónarmiða og þess að sú niðurstaða Landsréttar að fella niður skyldu þriggja gagnaðila til greiðslu málskostnaðar í héraði hafi verið andstæð lögum.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi meðal annars um sameign, samaðild og túlkun 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þá kann niðurstaða Landsréttar um ákvörðun málskostnaðar að vera í ósamræmi við lög. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.