Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-82

Anna Kristín Pétursdóttir (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldabréf
  • Lánssamningur
  • Verðtrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 9. júní 2022 leitar Anna Kristín Pétursdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. maí sama ár í máli nr. 161/2021: Anna Kristín Pétursdóttir gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði til áfrýjunar séu uppfyllt.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til þess að leyfisbeiðandi tók árið 2009 verðtryggt húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði. Árið 2020 höfðaði hún mál þetta á hendur gagnaðila þar sem hún byggir á því að rangri reikningsaðferð hafi verið beitt við útreikning verðbóta lánsins. Rétt hefði verið að beita annarri aðferð og vísar því til stuðnings til orðalags þágildandi 2. mgr. 4. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur með vísan til forsendna hans um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í héraðsdómi kom fram að með skírskotun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 243/2015 teldist staðfest að fyrirmæli Seðlabanka Íslands um verðtryggingu hefðu frá upphafi þeirrar lántöku sem um ræddi tekið mið af þeirri aðferð að höfuðstóll skuldar breyttist með verðlagsþróun og að afborganir og vextir reiknuðust af verðbættum höfuðstól. Ekki væri sýnt fram á að reikningsaðferð sem beitt hefði verið færi í bága við gildandi reglur eða almenna framkvæmd. Því var talið að skilmálar lánsins væru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 492/2001. Jafnframt taldi héraðsdómur að tilgreindir annmarkar væru á þeim útreikningum sem lágu til grundvallar kröfugerð leyfisbeiðanda. Þá var því hafnað að skilmálunum yrði vikið til hliðar eða þeim breytt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi í ljósi þess að fjöldi einstaklinga hafi tekið verðtryggð húsnæðislán með sömu skilmálum. Þá telur hún úrslit málsins varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars þar sem greiðslubyrði lánsins sé umtalsvert hærri en hún ætti að vera. Enn fremur telur hún að að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem hún hafi ranglega verið látin bera sönnunarbyrði fyrir tilgreindum ágreiningsefnum málsins. Loks reisir hún beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.