Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-158
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lífeyrisréttindi
- Skerðing
- Eignarréttur
- Stjórnarskrá
- Meðalhóf
- Jafnræði
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 22. desember 2023 leitar Lífeyrissjóður verzlunarmanna leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember sama ár í máli nr. E-1722/2023: A gegn Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðanda hafi verið heimilt að skerða áunnin réttindi gagnaðila í A-deild leyfisbeiðanda með breytingu á samþykktum hans í apríl 2022 sem tóku gildi 1. janúar 2023. Umrædd skerðing fól í sér viðbrögð leyfisbeiðanda við breytingu á lífslíkutöflum. Voru áunnin réttindi sjóðsfélaga lækkuð mismikið eftir aldurshópum.
4. Með héraðsdómi var ógilt ákvæði 6. töluliðar viðauka B, í samþykktum stefnda. Dómurinn vísaði til þess að áunnin lífeyrisréttindi gagnaðila í samtryggingarsjóði leyfisbeiðanda væru eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Þau réttindi yrðu ekki af gagnaðila tekin nema með skýlausri lagaheimild. Slík heimild hefði ekki falist í 1. og 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þótt ákvæðin feli í sér heimild fyrir leyfisbeiðanda til að grípa til vissra aðgerða og jafnvel skerða greiðslur til sjóðsfélaga. Lagði dómurinn til grundvallar að slík skerðing áunninna réttinda gæti einungis stuðst við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997, en skilyrði þess ákvæðis væru ekki uppfyllt í málinu. Var því talið að skerðingin hefði ekki átt sér lagastoð. Þá tók dómurinn fram að jafnvel þó skerðingin yrði talin rúmast innan þess svigrúms sem lífeyrissjóðir hefðu til breytinga á samþykktum sínum þá stæðust breytingarnar vart jafnræðissjónarmið og meðalhóf.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að brýnt sé að fá endanlega niðurstöðu í málinu eins skjótt og kostur er, engin þörf sé á að leiða vitni í því og ekki sé ágreiningur uppi um sönnunargildi munnlegs framburðar. Jafnframt telur hann ekki þörf á sérfróðum meðdómsmanni við úrlausn málsins á æðra dómstigi. Telur leyfisbeiðandi einsýnt að dómur Hæstaréttar í málinu verði fordæmisgefandi um svigrúm lífeyrissjóða til að ákveða breytingar á áunnum óvirkum réttindum sjóðsfélaga í samþykktum og einnig um þær ráðstafanir sem lífeyrissjóðir geti gripið til vegna hækkandi lífaldurs. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að þeir hagsmunir og fjármunir sem séu undir í málinu hafi verulega samfélagslega þýðingu. Þannig muni dómur Hæstaréttar ekki aðeins hafa áhrif á aðila málsins eða sjóðsfélaga leyfisbeiðanda heldur allt lífeyriskerfið.
6. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki fyrir hendi í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.