Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-159

Svava Björnsdóttir og Skúli Þórarinsson (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Einari Valgeirssyni og Unni Magneu Magnadóttur (Sigmundur Hannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Skoðunarskylda
  • Upplýsingaskylda
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 19. desember 2023 leita Svava Björnsdóttir og Skúli Þórarinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. nóvember sama ár í máli nr. 471/2022: Svava Björnsdóttir og Skúli Þórarinsson gegn Einari Valgeirssyni og Unni Magneu Magnadóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fasteign sem gagnaðilar seldu leyfisbeiðendum í desember 2018 hafi verið gölluð þannig að leyfisbeiðendur eigi rétt á skaðabótum eða afslætti úr hendi gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda og þeim gert að greiða gagnaðilum eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar gegn útgáfu afsals. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki hefði verið leitt í ljós að gagnaðilar hefðu við sölu haft vitneskju um ágalla á þaki, leka eða raka í fasteigninni. Þá voru almennar fullyrðingar í söluyfirliti ekki taldar hafa falið í sér loforð um ábyrgð gagnaðila á tilteknum eiginleikum fasteignarinnar. Var því ekki talið að gagnaðilar hefðu veitt rangar upplýsingar eða vanrækt upplýsingaskyldu sína með saknæmum hætti og bakað sér skaðabótaábyrgð á sakargrundvelli. Landsréttur lagði til grundvallar að ágalli hefði verið á þaki fasteignarinnar og á steypu í kringum glugga í stofu sem leyfisbeiðendur hefðu ekki getað veitt athygli við hefðbundna skoðun en ekki var fallist á að aðrir gallar væru til staðar sem gagnaðilar bæru ábyrgð á. Að virtri dómaframkvæmd var ekki var talið að þessir ágallar rýrðu verðmæti fasteignarinnar svo að nokkru varðaði, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, og var því ekki fallist á kröfu leyfisbeiðenda um bætur vegna þeirra. Ekki var heldur fallist á kröfu leyfisbeiðenda um bætur vegna leigu á húsnæði, flutnings búslóðar og leigu á geymslurými þar sem leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á saknæma háttsemi gagnaðila.

5. Leyfisbeiðendur byggja á að málið hafi fordæmisgildi og sakarefnið varði verulega fjárhagslega hagsmuni þeirra enda hafi þeir verið sviptir réttindum sem teljist til eignar í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telja leyfisbeiðendur að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til enda gangi rökstuðningur í dóminum þvert gegn viðurkenndum meginreglum skaðabóta-, kröfu- og fasteignakauparéttar. Að endingu vísa leyfisbeiðendur til þess að brýnt sé að Hæstiréttur taki dóm Landsréttar til endurskoðunar enda varði það mikilvæga, almenna hagsmuni að beiting sönnunarreglna og lagatúlkun sé skýr og fyrirsjáanleg.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.