Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-157

Vínnes ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Endurgreiðsla
  • Skattur
  • Gjaldtaka
  • Framsal valds
  • Félagafrelsi
  • Jafnræði
  • Friðhelgi eignarréttar
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ingveldur Einarsdóttir.

2. Með beiðni 2. desember 2022 leitar Vínnes ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember 2022 í máli nr. 432/2021: Vínnes ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um endurgreiðslu á skilagjaldi og umsýsluþóknun sem félaginu var gert að greiða á tímabilinu 15. janúar 2016 til 15. nóvember 2019 á grundvelli laga nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda að hluta og var gagnaðila gert að endurgreiða tæplega helming þeirrar umsýsluþóknunar sem leyfisbeiðandi innti af hendi á tímabilinu 15. janúar 2016 til 15. maí 2017. Gagnaðili undi þeirri niðurstöðu og laut ágreiningur málsins fyrir Landsrétti því að kröfum leyfisbeiðanda að öðru leyti. Í dómi Landsréttar var rakið að óumdeilt væri að umrædd gjöld teldust vera skattur. Í lögum nr. 52/1989, eins og þau voru er gjöldin voru lögð á, hefði skýrlega verið mælt fyrir um fjárhæðir skilagjalds og umsýsluþóknunar, sem voru misháar eftir umbúðaeiningum. Óumdeilt væri að sú álagning sem ágreiningur aðila fyrir Landsrétti laut að væri að öllu leyti til samræmis við þær fjárhæðir sem komu fram í lögunum. Álagningin hefði því byggt á beinum fyrirmælum löggjafans og ekki verið í andstöðu við 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var ekki fallist á að álagningin hefði farið í bága við 65., 72. eða 74. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur staðfesti því dóm héraðsdóm að því frátöldu að hin dæmda fjárhæð var látin bera dráttarvexti frá 14. janúar 2020.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi að tvennu leyti. Annars vegar um gildissvið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og er því til stuðnings vísað til þess að í dómi Landsréttar hafi verið lögð til grundvallar sú forsenda að í skyldu leyfisbeiðanda samkvæmt lögum nr. 52/1989 til greiðslu skilagjalds og umsýsluþóknunar hafi ekki falist slík íhlutun í rétt hans til að standa utan félaga að hún hafi þurft að fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í 2. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi túlkun eigi sér ekki stoð í fyrirliggjandi dómafordæmum Hæstaréttar. Hins vegar hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi um inntak 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar enda kunni niðurstaða Landsréttar að fela í sér frávik frá fyrri fordæmum Hæstaréttar á þessu sviði.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.