Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-138
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ógilding
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Lóðarúthlutun
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sveitarfélög
- Stjórnsýslulög
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 21. júlí 2025 leitar Nesnúpur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 453/2024: Nesnúpur ehf. gegn Hafnarfjarðarkaupstað og Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar gagnaðila Hafnarfjarðarkaupstaðar um úthlutun lóðarinnar Ásvalla 3 í Hafnarfirði en til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda sveitarfélagsins. Atvik málsins eru að gagnaðilinn auglýsti eftir tilboðum í lóðina og átti leyfisbeiðandi hæsta boð í hana en gagnaðili Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. það næst hæsta. Sveitarfélagið tók tilboði gagnaðilans og vísaði meðal annars til þess að horft hefði verið til byggingarsögu bjóðenda.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var tekið fram að heimilt hefði verið að líta til byggingarsögu bjóðenda, þar á meðal til þess hvort eðlileg framvinda hefði verið á fyrri byggingarframkvæmdum. Þá var ekki fallist á með leyfisbeiðanda að brotið hefði verið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins enda hefði afstaða hans til tafa á fyrri framkvæmdum legið nægilega fyrir. Í því tilliti var ekki talið að á sveitarfélaginu hefði hvílt skylda til að afhenda leyfisbeiðanda afrit af samantektum og samanburði á bjóðendum. Landsréttur féllst auk þess ekki á að brotið hefði verið gegn 10., 11., 12. eða 18. gr. stjórnsýslulaga þótt tiltekinn annmarki hefði verið á rökstuðningi sveitarfélagsins. Hann gæti þó ekki einn og sér leitt til þess að fallist yrði á kröfur leyfisbeiðanda í málinu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem úthlutanir lóða á vegum sveitarfélaga feli í sér ráðstöfun takmarkaðra gæða og þau úthluti árlega fjölda lóða. Skilmálar útboðsins hafi verið óljósir og nýjar reglur birtar á tilboðstímanum sem sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga. Óumdeilt sé að við ákvarðanatöku hafi sveitarfélagið notast við hinar nýju reglur og Landsréttur komist réttilega að þeirri niðurstöðu að þær hafi ekki haft gildi gagnvart bjóðendum. Þegar af þeirri ástæðu að sveitarfélagið notaðist við reglurnar hafi réttinum borið að fella hina umdeildu ákvörðun úr gildi. Þá telur leyfisbeiðandi að sú niðurstaða Landsréttar að rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eigi að leiða til þess að hún verði ógilt enda um að ræða meginatriði málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.