Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-165
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Kynferðisleg áreitni
- Börn
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 31. október 2025 leitar Gunnlaugur Þ. Kristjánsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. sama mánaðar í máli nr. 8/2025: Ákæruvaldið gegn Gunnlaugi Þ. Kristjánssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni með því að hafa á árinu 2018 til febrúar eða mars 2021, á þáverandi heimili þeirra, brotið gegn henni með því að slá hana í fjölda skipta á rassinn og í eitt skipti nuddað beran rass hennar, læri og innanverð læri, en stúlkan var á þeim tíma 12 til 14 ára gömul. Háttsemin var talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í héraði var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í sjö mánuði skilorðsbundið. Landsréttur mildaði dóminn og dæmdi ákærða í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að verulegir aðferðafræðilegir annmarkar hafi verið á sönnunarmati hins áfrýjaða dóms sem hver um sig uppfylli skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í fyrsta lagi hafi rannsókn málsins verið verulega gölluð þar sem lykilgagna hafi ekki verið aflað, svo sem tiltekinna bréfskipta móður brotaþola við félagsþjónustu sveitarfélags. Í öðru lagi hafi Landsréttur lagt til grundvallar órökstudda sérfræði- eða sálfræðilega tilgátu um „seinkaða skynjun“ brotaþola á háttsemi leyfisbeiðanda. Í þriðja lagi hafi dómurinn vanrækt að meta áhrif „mengunar“ frá móður brotaþola á framburð brotaþola og vitnis en móðirin hafi staðið í hatrammri skilnaðar- og fjárskiptadeilu við leyfisbeiðanda. Við þær aðstæður sem voru uppi kunni að hafa verið skylt að kalla til meðdómsmann með sérkunnáttu. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar feli í sér ranga lögskýringu á hugtakinu „kynferðisleg áreitni“ og brot gegn lögmætisreglu refsiréttar sem feli í sér að skýra beri refsiheimildir þröngri lögskýringu. Leyfisbeiðandi áréttar sérstaklega að beiðnin varði lögskýringu og aðferðafræði við sönnunarmat en feli ekki í sér kröfu á endurmati sönnunargildis munnlegs framburðar og falli því að skilyrðum áfrýjunarleyfis til réttarins.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Í því sambandi skal tekið fram að engir þeir annmarkar eru á aðferð við sönnunarmat hins áfrýjaða dóms að varðað geti ómerkingu hans. Beiðninni er því hafnað.