Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-296

BB byggingar ehf. (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Svalbarðsstrandarhreppi (Árni Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Skipulag
  • Hafnað

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 18. desember 2020 leita BB byggingar ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. nóvember sama ár í málinu nr. 757/2019: BB byggingar ehf. gegn Svalbarðsstrandarhreppi, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda gagnaðila gagnvart honum vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ósamræmis milli aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps og deiliskipulags hverfisins Kotabyggðar. Í dómi Landsréttar var talið óumdeilt að vegna framangreinds ósamræmis hafi leyfisbeiðandi ekki getað fengið útgefið byggingarleyfi á lóðum þeim sem hann hafði eignast lóðarréttindi að árið 2010. Hins vegar væri ekki annað fram komið en að skilmálar aðalskipulags og deiliskipulags hefðu verið leyfisbeiðanda aðgengilegir og honum því skylt að kynna sér þá fyrir kaupin. Þá hafi leyfisbeiðandi ekki getað gengið út frá því að nýtt deiliskipulag lægi fyrir á ákveðnum tíma eða að hann gæti nýtt lóðir sínar undir frístundabyggð í trássi við gildandi aðalskipulag. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi að því er varðar þá óhóflegu skyldu sem lögð er á herðar kaupanda fasteignar eða lóðarleiguréttinda um að gæta að skipulagsáætlunum sveitarfélags. Málið hafi auk þess verulegt almennt gildi um upphaf fyrningarfrests í þeim tilvikum þegar tjón stafar af misræmi milli skipulagsáætlana, en héraðsdómur hafði sýknað gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda sökum fyrningar. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í dómi Landsréttar hafi ekki verið vikið að því að orðalag aðalskipulags á svæðinu hafi verið afar óljóst þannig að þurft hafi að fá álit Skipulagsstofnunar og óháðs hæstaréttarlögmanns á því hvort ósamræmi væri til staðar áður en umsókn leyfisbeiðanda var synjað. Að mati leyfisbeiðanda sé ekki unnt að gera þá kröfu að almennir borgarar eða lögaðilar þurfi ráðgjöf við athugun á því hvort heimilt sé að byggja frístundahús samkvæmt skipulagsáætlunum. Þurfi gagnaðili að bera hallann af óskýrum skipulagsáætlunum. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.