Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-282
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Málskostnaður
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 11. nóvember 2021 leitar Ásar frístundabyggð leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. október sama ár í málinu nr. 199/2020: Einn á móti X ehf. og Gunnar Briem gegn Ásum frístundabyggð á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar hafa ekki tekið afstöðu til beiðninnar.
3. Leyfisbeiðandi er félag umráðamanna lóða undir frístundahús í frístundabyggðinni Ásahverfi í landi jarðarinnar Fells í Bláskógabyggð. Í málinu krafði hann aðallega gagnaðila Einn á móti X ehf. og til vara gagnaðila Gunnar Briem um greiðslu árgjalds vegna starfsemi félagsins sem lagt var á árin 2016, 2017 og 2018.
4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili Einn á móti X ehf. dæmdur til að greiða leyfisbeiðanda árgjald sem var ákveðið á aðalfundi ársins 2016 en sýknaður af kröfum um greiðslu gjalda sem á voru lögð árin 2017 og 2018. Leyfisbeiðandi áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti og kom krafa hans á hendur gagnaðila Gunnari því ekki til álita fyrir Landsrétti. Þá var gagnaðila Einn á móti X ehf. gert að greiða leyfisbeiðanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé haldinn verulegum annmarka sem leitt geti til ómerkingar hans. Í þeim efnum vísar hann til þess að hvorki í forsendum né dómsorði sé tekin afstaða til þess hvort málskostnaðarákvörðun héraðsdóms á hendur gagnaðilanum Einn á móti X ehf. skuli vera óröskuð eða breytt með einhverjum hætti.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að ástæða sé til að ætla að á dómi Landsréttar kunni að vera þeir ágallar að rétt sé að samþykkja beiðni um áfrýjunarleyfi á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.