Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-115

Birgitta Strange og Pálmi Ólafur Theódórsson (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Kristmundi Stefáni Einarssyni, Írisi Dröfn Árnadóttur (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður ), Sentor ehf. og Magnúsi Filip Sævarssyni til réttargæslu (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Galli
  • Afsláttur
  • Fasteign
  • Matsgerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 24. júní 2025 leita Birgitta Strange og Pálmi Ólafur Theódórsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í máli nr. 809/2024: Birgitta Strange og Pálmi Ólafur Theódórsson gegn Kristmundi Stefáni Einarssyni og Írisi Dröfn Árnadóttur og Sentor ehf. og Magnúsi Filip Sævarssyni til réttargæslu. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Í málinu kröfðust gagnaðilar þess að leyfisbeiðendum yrði sameiginlega gert að greiða hvorum gagnaðila um sig 7.766.431 krónu ásamt nánar tilgreindum vöxtum vegna galla sem þau töldu vera á fasteign sem þau keyptu af leyfisbeiðendum með milligöngu réttargæslustefndu. Gagnaðilar héldu eftir 1.000.000 króna af lokagreiðslu af þessum sökum en greiddu þá fjárhæð ásamt áföllnum vöxtum undir rekstri málsins.

4. Með héraðsdómi voru leyfisbeiðendur dæmd til að greiða hvorum gagnaðila um sig 4.786.284 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum vegna galla á fasteigninni. Með dómi Landsréttar var talið að leyfisbeiðendur hefðu ekki veitt rangar upplýsingar eða vanrækt upplýsingaskyldu sína. Þá var jafnframt ekki talið að leyfisbeiðendur hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi og voru þau sýknuð af kröfum um skaðabætur og bætur fyrir óbeint tjón. Þá leysti Landsréttur úr þeirri málsástæðu hvort ágallar á fasteigninni rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varðaði, þannig að gagnaðilar ættu rétt til afsláttar af kaupverðinu. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að kostnaður vegna endurbóta á fasteigninni næmi um 10,4% af kaupverði hennar og þótti afsláttur hæfilega ákveðinn 5.000.000 króna, að teknu tilliti til verðmætisaukningar vegna endurnýjaðs þaks. Leyfisbeiðendum var gert að endurgreiða gagnaðilum þá fjárhæð, ásamt endurgreiðslu á lokagreiðslu eftirstöðva kaupverðs sem og útlögðum kostnaði við að afla skýrslu húsasmíðameistara, samtals 3.151.549 krónur til hvors þeirra um sig ásamt tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Í dóminum sé komist að þeirri niðurstöðu að gagnaðilar eigi rétt á afslætti af kaupverði að fjárhæð 5.000.000 króna. Við umræddan afslátt bætir Landsréttur lokagreiðslu að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta sem gagnaðilar greiddu vegna hennar. Það telja þeir ekki standast skoðun. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að niðurstaða Landsréttar um viðmið gallaþröskuldar sé ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Sé horft til endanlegrar niðurstöðu dómsins um afslátt séu 5.000.000 króna einungis 7,7 % af kaupverði en ekki 10,4%. Því vanti umtalsvert upp á að almennu viðmiði um 10% gallaþröskuld sé náð. Að lokum byggja leyfisbeiðendur á því að ekki hafi verið horft nægilega til skoðunarskyldu gagnaðila í málinu og að niðurstaða um málskostnað og vexti sé óeðlileg enda hafi leyfisbeiðendur unnið málið að stórum hluta miðað við upphaflegar kröfur gagnaðila.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að úrslit þess geti haft fordæmisgildi á sviði fasteignakauparéttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.