Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-124

Frjáls fjölmiðlun ehf. (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)
gegn
Fjárfestingafélaginu Dalnum ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Ógildi löggernings
  • Svik
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 24. apríl 2020 leitar Frjáls fjölmiðlun ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars sama ár í málinu nr. 395/2019: Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. gegn Frjálsri fjölmiðlun ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða sér 15.000.000 krónur auk dráttarvaxta vegna kaupa leyfisbeiðanda á kröfu gagnaðila á hendur Pressunni ehf. að fjárhæð 45.000.000 krónur. Samkvæmt samningi bar leyfisbeiðanda að greiða 30.000.000 krónur í tveimur greiðslum, 1. september 2018 og 1. september 2019 og jafnvirði 15.000.000 króna í auglýsingainneign. Er óumdeilt að leyfisbeiðandi innti ekki af hendi greiðslu til gagnaðila 1. september 2018 samkvæmt fyrrnefndum samningi. Heldur leyfisbeiðandi því meðal annars fram að gagnaðili hafi ekki átt neina kröfu á hendur Pressunni ehf. til að selja. Þá hafi gagnaðili nýtt tiltekin tryggingarbréf, sem samið hefði verið um að yrði aflétt og afmáð úr þinglýsingabók. Hafi tímaþröng vegna yfirvofandi gjaldþrots Pressunnar ehf. verið nýtt til að þvinga fram kröfukaupin. Telur leyfisbeiðandi því að samningurinn sé óskuldbindandi vegna svika gagnaðila eða að víkja beri honum til hliðar á þeim grundvelli að það sé óheiðarlegt, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila með vísan til þess að ósanngjarnt væri gagnvart leyfisbeiðanda að heimila gagnaðila að bera samninginn fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Landsréttar komst að gagnstæðri niðurstöðu og var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 15.000.000 krónur auk dráttarvaxta. Í dómi Landsréttar var því meðal annars hafnað að ógilda samning aðila og leysa leyfisbeiðanda undan efndaskyldu sinni með vísan til 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936.

 

 

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni þar sem rétturinn hafi heimilað gagnaðila að tefla fram nýjum málsástæðum. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar geti leitt til óvissu í réttarframkvæmd um beitingu meginreglu einkamálaréttarfars um hraða og afdráttarlausa málsmeðferð.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.