Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-71
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Aðför
- Innsetningargerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 6. júní 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, til að kæra úrskurð Landsréttar 23. maí 2023 í máli nr. 272/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að sonur hans og leyfisbeiðanda skuli tekinn úr umráðum leyfisbeiðanda og afhentur sér með beinni aðfarargerð.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að taka kröfu gagnaðila til greina. Í hinum kærða úrskurði sagði að rétturinn hefði í fyrri dómi sínum komist að þeirri að niðurstöðu að aðilar skyldu fara sameiginlega með forsjá barna sinna en að lögheimili sonar þeirra skyldi vera hjá gagnaðila. Landsréttur vísaði til þess að ekki yrði talið hafa þýðingu þótt ekki hefði reynst unnt, vegna afstöðu leyfisbeiðanda, að ræða við son aðila við meðferð málsins í héraði. Fram kom að leyfisbeiðandi hefði virt að vettugi úrlausnir dómstóla um að lögheimili drengsins skyldi vera hjá gagnaðila og héldi honum þvert á þá skipan. Væru skilyrði 45. gr. barnalaga nr. 76/2003 því ótvírætt uppfyllt. Þegar atvik og öll gögn málsins væru virt yrði ekkert talið fram komið sem leitt gæti til þess að varahugavert yrði talið að gerðin næði fram að ganga með tilliti til hagsmuna drengsins. Taldi Landsréttur því að hagsmunir drengsins stæðu ótvírætt til þess að hann nyti þeirra samvista með gagnaðila sem dómstólar hefðu endurtekið og á grundvelli ítarlega gagna metið honum fyrir bestu.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi, einkum til skýringar á því hvað geti talist varhugavert með tilliti til hagsmuna barns í skilningi 1. mgr. 45. gr. barnalaga þegar barn hafi lýst yfir eindreginni afstöðu sinni og greint frá alvarlegu ofbeldi af hálfu gagnaðila. Þá snúist málið um veigamikla hagsmuni viðkvæms barns. Landsréttur hafi enga afstöðu tekið til þeirra sönnunargagna málsins sem leyfisbeiðandi telur fela í sér skýrustu vísbendinguna um að ofbeldi gagnvart drengnum hafi átt sér stað. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til þar sem ekki hafi verið minnst á þau atriði til sönnunar sem leyfisbeiðandi telur ljóst að ættu að skipta höfuðmáli um niðurstöðu málsins og því ekki farið að fyrirmælum f-liðar 114. gr., sbr. 4. mgr. 164. gr., sbr. einnig 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og sonar hennar háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.