Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-147

Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen lögmaður)
gegn
þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Karps ehf. (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Riftun
  • Ógjaldfærni
  • Endurgreiðsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 26. nóvember 2024 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. október sama ár í máli nr. 527/2023: Íslenska ríkið gegn þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Karps ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfum gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um að rift verði greiðslu hins gjaldþrota félags til Skattsins 25. nóvember 2021 að fjárhæð 20.000.000 króna vegna gjaldfallinna opinberra gjalda og um endurgreiðslu gagnaðila á sömu fjárhæð ásamt vöxtum.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun greiðslunnar og að leyfisbeiðandi skyldi greiða gagnaðila 20.000.000 króna. Riftunarkrafa gagnaðila var byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bú gagnaðila var að kröfu Skattsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. júlí 2022. Frestdagur við skiptin var 28. apríl sama ár. Greiðslan til leyfisbeiðanda var innt af hendi með fjármunum sem komu fyrir sölu á fasteign félagsins en greiðsluáætlun hafði verið undirrituð af hálfu þess 23. nóvember 2021. Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að gögn málsins bæru með sér að gjaldfallin opinber gjöld félagsins hefðu áfram verið veruleg þrátt fyrir sölu fasteignarinnar. Í því ljósi og að teknu tilliti til þess að á árinu 2020 og fyrri hluta árs 2021 hefðu fimm sinnum farið fram árangurslausar aðfarargerðir hjá félaginu, þar af ein vegna kröfu frá Skattinum, og kröfur um gjaldþrotskipti ítrekað verið hafðar uppi yrði að líta svo á að leyfisbeiðandi hefði í nóvember 2021 verið grandsamur um ógjaldfærni félagsins. Var því fallist á að greiðslan 25. nóvember 2021 hefði á ótilhlýðilegan hátt verið honum til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa félagsins og leitt til þess að fjármunir hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Var því fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og að gagnaðili hefði orðið fyrir tjóni sem nam fjárhæð greiðslunnar, sbr. 3. mgr. 142. gr. sömu laga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Hann hafi sérstaka hagsmuni af því að skýrt verði hver frumkvæðisskylda innheimtumanna ríkissjóðs sé til að kanna fjárhag gjaldenda þegar tekið sé á móti greiðslu eftir að gerð hafi verið greiðsluáætlun í kjölfar árangurslauss fjárnáms. Athugunarskylda sem lögð sé á Skattinn með niðurstöðu hins áfrýjaða dóms sé ströng. Þá telur leyfisbeiðandi vafa leika á því hvort hinn áfrýjaði dómur sé réttur, einkum um túlkun á 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé sú niðurstaða dómsins röng að Skatturinn hafi verið grandsamur um ógjaldfærni.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.