Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-168

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Jóhönnu H. Þórsdóttur Wium (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fíkniefnalagabrot
  • Tilraun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. nóvember 2025 leitar Jóhanna H. Þórsdóttir Wium leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. október sama ár í máli nr. 686/2024: Ákæruvaldið gegn Jóhönnu H. Þórsdóttur Wium. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðanda var í 1. lið ákæru gefin að sök tilraun til fíkniefnalagabrots með því að hafa sótt pakka á pósthús og þar með gert tilraun til að taka við 256,28 g af amfetamíni og 4.725 g af hassi ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Var háttsemi hennar talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var henni í 2. lið ákæru gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Taldist brot hennar varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 50. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelld samkvæmt 2. ákærulið en sýknuð af þeim fyrri á þeim grundvelli að ekki teldist sannað svo hafið yrði yfir skynsamlegan vafa að hún hefði framið brotið sem henni var gefið að sök. Fyrir Landsrétti kom einvörðungu til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms um sakargiftir samkvæmt fyrri ákæruliðnum. Landsréttur taldi sannað að leyfisbeiðandi hefði vitað að fíkniefni væru í sendingunni og hún því sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni var þar gefin að sök. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í átta mánuði.

5. Leyfisbeiðandi byggir á 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 og vísar til þess að gagnstæð niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar byggist ekki á ólíku mati á sönnunargildi munnlegs framburðar enda hafi bæði dómstig verið sammála um að framburður leyfisbeiðanda hafi verið á reiki og ótrúverðugur. Þvert á móti hafi Landsréttur snúið niðurstöðu héraðsdóms á grundvelli mismunandi mats á öðrum sönnunargögnum í málinu sem leyfisbeiðandi telur rangt. Því hafi til að mynda verið gefið of mikið vægi að leyfisbeiðandi vildi ekki veita lögreglu aðgang að dulkóðuðu samskiptaforriti í síma hennar og of víðtækar ályktanir dregnar af ummælum sem hún viðhafði í kjölfar þess að hún sótti sendinguna.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar hennar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Að öllu virtu verður talið ljóst að áfrýjun til réttarins muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.