Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-102
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dánarbú
- Dánarbússkipti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 5. júlí 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að kæra úrskurð Landsréttar 21. júní 2024 í máli nr. 298/2024: A gegn B, C og dánarbúi D. Gagnaðilar B og C leggjast gegn beiðninni en dánarbú D tekur ekki afstöðu til hennar.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um að hún sé óbundin af tilgreindum samningum við gagnaðilana B og C um skiptingu og ráðstöfun tiltekinna eigna sem gerðir voru undir skiptameðferð gagnaðila dánarbús D. Heldur hún því fram að ekki eigi að byggja á þeim við úthlutun úr dánarbúinu. Krafa leyfisbeiðanda um að málinu skuli vísað frá héraðsdómi grundvallast á því að skiptastjóra hafi borið að vísa öllum ágreiningi um frumvarp að úthlutunargerð í dánarbúinu til úrlausnar héraðsdóms en ekki afmörkuðum hluta hans.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um að hún væri óbundin af fyrrgreindum samningum um skiptingu eigna og uppgjör sem gerðir voru undir skiptameðferð á dánarbúinu. Þá hafnaði Landsréttur frávísunarkröfu leyfisbeiðanda og taldi að það væri undir mati skiptastjóra komið hvaða ágreiningsatriðum hann vísaði til úrlausnar héraðsdóms hverju sinni auk þess sem krafa skiptastjóra til héraðsdóms hefði uppfyllt formskilyrði 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Þá taldi Landsréttur að erfingjar hefðu heimild til að semja um hvernig þeir höguðu skiptum enda væru erfðaréttindi í eðli sínu einkaréttindi. Fyrir lá að í samningum um skipti á búinu var tekið tillit til verðmætis tiltekinnar fasteignar og ósannað þótti að það væri mun meira en miðað hefði verið við í samningum aðila. Þá var leyfisbeiðandi ekki talin hafa sýnt fram á að ógildingarástæður samningaréttarins ættu við.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og hið sama eigi við um úrlausn um skýringu 122. gr. laga nr. 20/1991. Í úrskurði Landsréttar sé lagt til grundvallar að skiptastjóri hafi sjálfsvald um hvaða ágreiningi hann skjóti til úrlausnar héraðsdóms. Leyfisbeiðandi telur hins vegar skýrt að komi upp ágreiningur um frumvarp að úthlutunargerð sé skiptastjóra skylt að skjóta þeim ágreiningi til héraðsdóms. Því sé niðurstaða Landsréttar að þessu leyti ekki rétt.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 3. málslið 3. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.