Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-193
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Peningaþvætti
- Fyrning
- Afturvirkni laga
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 2. júní 2020 leitar Júlíus Vífill Ingvarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. maí sama ár í málinu nr. 20/2019: Ákæruvaldið gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst ekki gegn beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á árunum 2010 til 2014 geymt ávinning af skattalagabroti inni á erlendum bankareikningi í sínu nafni og ráðstafað þeim fjármunum á árinu 2014 inn á nýjan bankareikning sem var í eigu vörslusjóðs sem leyfisbeiðandi, eiginkona hans og börn voru rétthafar að. Landsréttur taldi hafið yfir vafa að sá hluti fjármunanna sem hefðu verið inn á fyrrnefndum bankareikningi og ákært var fyrir hefði verið ólögmætur ávinningur af skattalagabroti leyfisbeiðanda samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga. Það hafi því ekki haft neina þýðingu að frumbrotið sem ávinningurinn stafaði frá hefði verið fyrnt þegar rannsókn málsins hófst. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til auk þess sem málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að Landsréttur hafi í dómi sínum beitt aðferðum við sönnunarmat sem ekki eigi sér stoð í réttarframkvæmd eða viðurkenndum reglum sakamálaréttarfars. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að skilyrði sjálfsþvættis samkvæmt 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt í málinu enda þurfi að meta í ljósi atvika hverju sinni, hvort rétt og eðlilegt sé að horfa á meðferð ávinnings sem aðskilið og sjálfstætt brot en ekki óhjákvæmilegan hluta af frumbroti. Til viðbótar byggir leyfisbeiðandi á því að ætlað brot hans hafi verið fyrnt. Í dómi Landsréttar hafi því ranglega verið haldið fram að sjónarmið sem eigi við um auðgunarbrot um að brot teljist fullframið og fyrningarfrestur byrji að líða við tileinkun eigi ekki við um sjálfstætt brot, líkt og peningaþvætti, sem geti staðið yfir í langan tíma. Að mati leyfisbeiðanda samræmist umrædd lagatúlkun hvorki dómaframkvæmd Landsréttar né skrifum fræðimanna. Niðurstaða Hæstaréttar um þetta atriði muni því hafa verulegt almennt gildi um upphaf fyrningarfrests brota gegn 264. gr. almennra hegningarlaga. Loks telur leyfisbeiðandi að sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert þegar ætlaður ávinningur féll til og því hafi ekki verið heimilt að refsa honum fyrir það brot vegna grundvallarreglunnar um bann við afturvirkni refsilaga.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um meðal annars beitingu ákvæða 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er fallist á umsókn leyfisbeiðanda.