Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-183
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umboð
- Einkahlutafélag
- Fjártjón
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 25. desember 2024 leitar Lyfjablóm ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 566/2022: Lyfjablóm ehf. gegn Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í viðskiptum með hlutfé í Þúfubjargi ehf. (síðar Gnúpi fjárfestingafélagi hf.) og við hlutafjárhækkun í Gnúpi fjárfestingafélagi hf. Leyfisbeiðandi telur sig hafa verið beittan sviksamlegum blekkingum og margvíslegum aðgerðum verið beitt til þess að dylja þá háttsemi í lögskiptum aðila.
4. Með vísan til forsendna héraðsdóms var með dómi Landsréttar staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gögn málsins styddu ekki þá fullyrðingu leyfisbeiðanda að gagnaðilar hefðu blekkt hann í umþrættum lögskiptum og þar með valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti svo bótaskyldu varðaði.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans, enda nemi dómkröfur í málinu 2,3 milljörðum króna. Þá telur hann að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og sé án nokkurs vafa fordæmisgefandi á sviði skatta- og hlutafélagaréttar, meðal annars um innborgað hlutafé og ólögmætar úttektir úr félagi, sem og lagareglur um meðferð eigna hlutafélaga. Að lokum telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga enda sé hún með öllu órökstudd og byggð á misskilningi héraðsdóms um tiltekin lykilskjöl í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að hvorki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.