Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-78
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Hlutafélag
- Hlutafé
- Greiðsla
- Endurskoðandi
- Sérfræðiábyrgð
- Skaðabætur
- Þrotabú
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 15. júní 2023 leitar þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. maí 2023 í máli nr. 181/2021: Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. gegn Ernst & Young ehf. og Rögnvaldi Dofra Péturssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna saknæmrar háttsemi þeirra við gerð sérfræðiskýrslu á grundvelli 6. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Skýrslan var unnin af gagnaðilanum Rögnvaldi Dofra, endurskoðanda hjá gagnaðilanum Ernst & Young ehf., og laut að verðmæti greiðslu USI Holding B.V. fyrir 405.280.000 hluti í Sameinuðu Sílikoni hf. en greitt var fyrir hlutina með öllum hlutum í Geysi Capital ehf. Byggði leyfisbeiðandi á því að gagnaðilar hefðu valdið félaginu tjóni þar sem greiðsla USI Holding B.V. fyrir hlutaféð hefði verið ófullnægjandi og að fjármuni hefði því vantað í sjóði Sameinaðs Sílikons hf. þegar félagið fór í þrot.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dóminum var vísað til þess að með áskriftarloforði hluthafa öðlist hlutafélag kröfu um greiðslu hlutafjár úr hendi hluthafa. Við hækkun hlutafjár skuli hlutir greiddir að fullu í síðasta lagi einu ári eftir ákvörðun um hækkun hlutfjár, eins og segir í 19. gr. laga nr. 2/1995. Ef ekki væri tilkynnt á réttum tíma að hinir nýju hlutir hefðu verið greiddir að fullu skyldi hlutafélagaskrá veita frest en annars hlutast til um að láta skrá að hlutaféð hefði verið lækkað sem samsvaraði nafnverði þeirra hluta sem ekki hefðu verið greiddir. Skyldu hækkunarhlutir teljast ógildir þegar lækkunin hefði verið skráð. Krafa leyfisbeiðanda á hendur gagnaðilum væri skaðabótakrafa utan samninga og miði slík krafa að því að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og ef saknæm háttsemi tjónvalds hefði ekki komið til. Í ljósi framangreinds yrði að leggja til grundvallar að hóflegra verðmat af hálfu gagnaðila á greiðslunni hefði leitt til lækkunar á skráðu hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. Því yrði að líta svo á að mögulega of hátt verðmat gagnaðila á hlutum í Geysi Capital ehf. hefði stuðlað að því að hlutafé USI Holding B.V. í Sameinuðu Sílikoni hf. hefði verið of hátt skráð. Leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að það hefði valdið félaginu tjóni þannig að hann ætti kröfu um skaðabætur utan samninga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 og um skilyrði bótaábyrgðar endurskoðenda í tengslum við hækkun hlutafjár og hvort að tjón geti leitt af því þegar fullnægjandi greiðsla berst ekki vegna sérfræðiskýrslu. Málið hafi þannig þýðingu í félagarétti og fyrir áreiðanleika opinberrar skráningar. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að dómaframkvæmd Landsréttar í málinu hafi verið óstöðug. Tveir dómarar af þremur hafi skipt um skoðun á grundvallaratriðum málsins án þess að það mætti rekja til nýrra sönnunargagna. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um tjónsþátt sakarreglunnar. Hlutaféð hafi verið skráð greitt að fullu hjá fyrirtækjaskrá á grundvelli sérfræðiskýrslu stefndu. Umfjöllun um möguleg viðbrögð hlutafélagaskrár sé þýðingarlaus.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um hækkun hlutafjár, túlkun á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 og sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.