Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-123
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Samkeppni
- Misnotkun á markaðsráðandi stöðu
- Stjórnvaldssekt
- Upplýsingaskylda
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 22. apríl 2020 leitar Mjólkursamsalan ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars sama ár í málinu nr. 516/2018: Mjólkursamsalan ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 þar sem felldur var úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnaðila Samkeppniseftirlitsins 7. júlí 2016 sem laut að því að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með því að hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum. Brot leyfisbeiðanda voru einkum talin felast í því að keppinautar hans þurftu að sæta því að kaupa ógerilsneydda mjólk, sem er grundvallarhráefni við framleiðslu á hvers kyns mjólkurvörum, á óeðlilega háu verði á meðan leyfisbeiðandi sjálfur og tengdir aðilar fengu hráefnið á mun lægra verði. Með umræddum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var hins vegar staðfestur sá hluti ákvörðunar gagnaðila Samkeppniseftirlitsins sem laut að því að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að hafa veitt samkeppnisyfirvöldum rangar upplýsingar. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði stjórnvaldssekt leyfisbeiðanda úr 480.000.000 króna í 40.000.000 króna.
Gagnaðili Samkeppniseftirlitið hafði upprunalega lagt sekt á leyfisbeiðanda með ákvörðun 22. september 2014 fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína og raska samkeppni með fyrrnefndri háttsemi. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 16. desember 2014 var ákvörðunin felld úr gildi og gagnaðila Samkeppniseftirlitinu gert að rannsaka málið frekar og taka ákvörðun að því loknu. Var ákvörðun tekin í kjölfarið af hálfu gagnaðila Samkeppniseftirlitsins 7. júlí 2016.
Með dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 29. maí 2018 var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 ógiltur að því leyti sem þar var felld úr gildi ákvörðun gagnaðila Samkeppniseftirlitsins og leyfisbeiðanda gert að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á 11. og 19. gr. samkeppnislaga. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með dómi Landsréttar 27. mars 2020. Í dóminum kom meðal annars fram að löggjafarsaga 4. mgr. 13. gr. og 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 bæri ekki með sér að lögin undanskildu frá samkeppnislögum samkomulag um hlutfallslega jöfnun framlegðar fyrirtækja, á borð við það sem leyfisbeiðandi hafði gert við tengdan aðila, þannig að ekki kæmi til athugunar hvort leyfisbeiðandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Að virtum gögnum málsins komst dómurinn meðal annars að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi, sem markaðsráðandi fyrirtæki, hefði selt sömu vöruna ólíkum aðilum á mjög mismunandi verði sem hefði veikt samkeppnisstöðu þeirra sem hærra verðinu sættu án þess að hlutlægar ástæður réttlættu verðmismuninn.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun 71. gr. búvörulaga og hvenær samstarfi á grundvelli ákvæðisins sleppi og samkeppnislög taki við. Þá reyni í málinu í fyrsta sinn á túlkun 19., sbr. 37. gr. samkeppnislaga um brot gegn upplýsingaskyldu. Auk þess hafi málið fordæmisgildi um endurskoðunarvald dómstóla gagnvart sektarákvörðunum samkeppnisyfirvalda og um fjárhæð sektar vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga. Leyfisbeiðandi telur einnig að málið varði sérstaklega mikla hagsmuni fyrir hann, annars vegar til þess að fá hinni háu stjórnvaldssekt hnekkt og hins vegar til þess að fá tækifæri til þess að hreinsa sig af ásökunum um brot gegn samkeppnislögum sem hafi haft í för með sér orðsporðshnekki fyrir hann.
Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að formi og efni til. Landsréttur hafi gengið alltof langt í endurskoðun sinni á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála bæði hvað varðar álagningu stjórnvaldssektar og um brot leyfisbeiðanda gegn 11. gr. samkeppnislaga. Þá hafi dómurinn að geyma ýmsar fullyrðingar og forsendur sem séu efnislega rangar. Til viðbótar hafi Landsréttur skýrt ákvæði 71. gr. búvörulaga og c. lið 2. mgr. 11. gr. og 19. gr. samkeppnislaga með röngum hætti.
Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í máli þessu geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.