Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-163

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabótaábyrgð
  • Líkamstjón
  • Sjúklingatrygging
  • Heilbrigðismál
  • Sjúkrahús
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 20. nóvember 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. október sama ár í máli nr. 575/2024: A gegn Sjúkratryggingum Íslands. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var hafnað kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkenna skaðabótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í skurðaðgerð árið 2016. Taldi dómurinn að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að um bótaskylt tjón hefði verið að ræða sem fallið gæti undir 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar enda sé það líkamstjón sem hún varð fyrir við aðgerðina henni verulega íþyngjandi. Vegna þess gangi hún með hækju og hafi enga stjórn á vinstri fæti. Úrslit málsins hafi auk þess verulegt almennt gildi, einkum um 1. tölulið 2. gr. laga nr. 111/2000 og að hvaða leyti ákvæðið rými burt reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Þá hafi aldrei reynt á 3. tölulið sömu greinar fyrir dómi. Loks gerir leyfisbeiðandi nánar tilgreindar athugasemdir við form og efni héraðsdóms.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málsliður sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.