Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-68
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Viðurkenningarkrafa
- Vinnuslys
- Bótaskylda
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 10. apríl 2025 leita VÍS tryggingar hf. og B hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 96/2024: A gegn VÍS tryggingum hf. og B hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu leyfisbeiðandans B hf. og rétt til bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hf. hjá leyfisbeiðandanum VÍS tryggingum hf. vegna líkamstjóns sem hann hlaut í starfi sínu hjá B hf. í ágúst 2018 þegar hann féll 1,55 metra til jarðar af palli flatvagns.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðendur af kröfu gagnaðila. Með dómi Landsréttar var talið, meðal annars á grundvelli umsagnar Vinnueftirlitsins, að verklag leyfisbeiðandans B hf. hefði haft í för með sér hættu sem hægt hefði verið að afstýra án mikilla vandkvæða og vinnulagið hefði verið orsök þess að gagnaðili féll af pallinum og slasaðist. Skilyrði sakarreglunnar voru því talin vera uppfyllt í málinu. Landsréttur féllst á kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu B hf. og rétt hans til greiðslu bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu félagsins hjá VÍS tryggingum hf.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða málsins hafi verulegt fordæmisgildi í tengslum við vægi stöðu tjónþola við mat á hvort aðstæður séu hættulegar, skyldur vinnuveitanda umfram lögboðnar skyldur í tengslum við fallvarnir og vægi umsagna Vinnueftirlitsins sem sönnunargagns við mat á saknæmri háttsemi í vinnuslysamálum. Í málinu vísaði Landsréttur sérstaklega til umsagnar Vinnueftirlitsins til stuðnings niðurstöðu sinni. Leyfisbeiðendur benda á að í dómi Landsréttar 3. apríl 2025 í máli nr. 175/2024 hafi verið komist að gagnstæðri niðurstöðu og þar ekkert tillit tekið til umsagnar Vinnueftirlitsins. Leyfisbeiðendur benda á að málin tvö séu mjög sambærileg en hafi ekki verið dæmd á sama hátt af sama dómstóli. Það skapi réttaróvissu sem nauðsynlegt sé að Hæstiréttur skýri. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að með breytingalögum nr. 105/2024 sem tóku gildi 1. janúar 2025 hafi bæst ný málsgrein við 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og með henni sé girt fyrir að umsögnum Vinnueftirlitsins sé beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum. Þetta hafi gildi í fyrirliggjandi máli og undirstriki vilja löggjafans til að rannsóknir Vinnueftirlitsins hafi ekki þann tilgang að benda á sök eða ábyrgð.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi, meðal annars um þýðingu umsagna Vinnueftirlitsins í vinnuslysamálum. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.