Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-7

Heiðardalur ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Búð ehf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Veiðifélag
  • Atkvæðisréttur
  • Lax- og silungsveiði
  • Jörð
  • Eignarréttur
  • Afturvirkni laga
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 7. janúar 2025 leitar Heiðardalur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 470/2023: Heiðardalur ehf. gegn Búð ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á því að ekkert atkvæði fylgi jörðinni Hvarfsdal í Dalabyggð í Veiðifélagi Búðardalsár. Jörðin er í eigu gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur rakti að jörðin Hvarfsdalur, sem hefði verið komin í eyði árið 1938, hefði átt aðild að Veiðifélagi Búðardalsár allt frá stofnun þess árið 1973. Þá hefði jörðin ætíð farið með atkvæðisrétt á þeim vettvangi sem eyðijörð. Landsréttur taldi að lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði hefði ekki verið ætlað að breyta atkvæðisrétti eyðibýla. Með vísan til lögskýringargagna, 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar, meðalhófs og þess að atkvæðisréttur í veiðifélagi yrði ekki skertur afturvirkt taldi Landsréttur að skýra yrði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 þannig að jörðin Hvarfsdalur færi með atkvæðisrétt í veiðifélaginu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en ekki hafi áður reynt fyrir dómi á túlkun 40. gr. laga nr. 61/2006. Niðurstaðan muni hafa verulegt fordæmisgildi um túlkun reglna um atkvæðisrétt í veiðifélögum og snerti ótilgreindan fjölda veiðifélaga og jarða. Þá hafi úrlausn málsins almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna á sviði veiðiréttar sem og um hugtakið lögbýli í skilningi laga. Leyfisbeiðandi byggir enn fremur á því að úrslit málsins hafi mikla samfélagslega þýðingu og varði verulega hagsmuni sína sem eiganda veiðiréttar í Búðardalsá. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.