Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-78

A (Stefán Geir Þórisson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Vátrygging
  • Líkamstjón
  • Viðurkenningarkrafa
  • Orsakatengsl
  • Sönnun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 19. júní 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. maí sama ár í máli nr. 329/2023: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tjón vegna slyss sem leyfisbeiðandi varð fyrir á reiðhjóli hafi hlotist af notkun ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar og sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sem tryggð var hjá gagnaðila.

4. Með héraðsdómi var viðurkennd bótaskylda úr ábyrgðartryggingu gagnaðila. Með dómi Landsréttar var gagnaðili hins vegar sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi ósannað að fall leyfisbeiðanda af hjólinu hefði hlotist af notkun bifreiðarinnar. Þá var heldur ekki talið að líkamstjón það sem hann varð fyrir vegna fallsins, þegar hann rann eftir veginum og utan í bifreiðina, hefði hlotist af notkun bifreiðarinnar í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga 30/2019. Þótt bifreiðin hefði ekki verið kyrrstæð yrði ekki talið að ákoma leyfisbeiðanda á hana hefði hlotist af akstri hennar eða hreyfingu né sérstökum búnaði hennar eða eiginleikum sem ökutækis. Litið var til þess að bifreiðin var á mjög lítilli ferð og hvorki ekið á leyfisbeiðanda né varð hún þess valdandi að hann féll af hjóli sínu, heldur hafi leyfisbeiðandi runnið af orsökum ótengdum bifreiðinni eftir veginum og lent á hlið hennar. Taldi rétturinn að eins og atvikum væri háttað teldist þáttur bifreiðarinnar áþekkur því að hjólað væri á kyrrstæða bifreið.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að dómur í því sé fordæmisgefandi um túlkun á hugtakinu notkun ökutækis í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019. Þá varði niðurstaða málsins sérlega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda sem að óbreyttu fái ekki bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna afleiðinga slyssins. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, einkum þar sem Landsréttur endurmeti gildi framburðar um aðstæður á vettvangi sem héraðsdómari hafi þegar sjálfur skoðað með vettvangsgöngu en Landsréttur ekki. Þá telur leyfisbeiðandi þá fullyrðingu að telja þátt bifreiðarinnar í tjóninu áþekkan því og þegar hjólað er á kyrrstæða bifreið bersýnilega ranga. Slysið hafi orðið í umferð þar sem bifreið var ekið eftir þröngri umferðargötu í blindbeygju og ökumaður hennar hefði borið ábyrgð á slysinu á grundvelli sakar hefði hann skilið bifreiðina eftir kyrrstæða á þessum stað.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi um túlkun 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.