Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-148
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Lögskýring
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. desember 2023 leitar Árni Jón Gissurarson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. nóvember sama ár í máli nr. 501/2022: Árni Jón Gissurarson gegn Þorbirni hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila varðar kröfu um greiðslu bóta í uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en leyfisbeiðandi starfaði sem vélstjóri á skipum sem gagnaðili gerði út.
4. Með dómi Landsréttar var með vísan til forsendna staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í héraðsdómi var rakið að gagnaðili hefði með því að segja leyfisbeiðanda upp störfum og hafna vinnuframlagi hans í uppsagnarfresti vikið honum úr skiprúmi þannig að hann ætti bótarétt samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Þótt til væru eldri dómafordæmi sem byggðu á að samkomulag um skiptimannakerfi hefði fallið úr gildi þegar skipverja var vikið úr skiprúmi sem leiddi til þess að hann ætti rétt til launa án tillits til skiptimannakerfis út uppsagnarfrest yrði ekki hjá því litið að réttarframkvæmd hefði breyst í þessum efnum. Í nýrri framkvæmd hefði verið gengið út frá að til að bæta skipverja tjón sem slit á ráðningarsamningi hefði valdið honum bæri að gera hann eins settan og hann hefði unnið út uppsagnarfrestinn á óbreyttum starfskjörum. Í dómi Landsréttur kom fram að bótaréttur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga fæli í sér að gera yrði leyfisbeiðanda eins settan og hann hefði, meðan á uppsagnarfresti stóð, verið við störf hjá gagnaðila með sama hætti og áður og var um það meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 229/2010.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi vegna réttaróvissu um inntak bótareglu 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Þá varði málið umtalsverða fjárhagslega hagsmuni hans og dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem hann samræmist ekki áratugalangri dómaframkvæmd um inntak bótareglunnar.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu 25. gr. sjómannalaga. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.