Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-170

A og B (Einar Páll Tamimi lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattur
  • Skattrannsókn
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Endurákvörðun
  • Rannsóknarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. desember 2024 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. nóvember sama ár í máli nr. 494/2023: A og B gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að úrskurði ríkisskattstjóra 17. desember 2019 um endurákvörðun opinberra gjalda leyfisbeiðandans A á árinu 2014, sem staðfestur var með úrskurði yfirskattanefndar 17. febrúar 2021.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Með úrskurði ríkisskattstjóra, sem staðfestur var af yfirskattanefnd, var komist að þeirri niðurstöðu að kaup félagsins C ehf., sem var í eigu leyfisbeiðandans A, á kröfu hans á hendur félaginu D ehf., hefðu falið í sér óheimila úttekt á fjármunum C ehf., sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Leyfisbeiðandinn A var einn eigenda D ehf. og hafði lánað félaginu talsverða fjármuni. Kaupin áttu sér stað 1. ágúst 2013. Bú D ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. júní 2014. Héraðsdómur féllst ekki á að ríkisskattstjóra hefði borið að beita 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 í stað 1. mgr. greinarinnar. Héraðsdómur hafnaði málatilbúnaði leyfisbeiðenda um að slíkir form- eða efnisannmarkar hefðu verið á úrskurðum skattyfirvalda að fella bæri þá úr gildi. Fallist var á að ríkisskattstjóra hefði verið rétt með vísan til grunnreglu 1. mgr. 57. gr. laganna að líta svo á að ákvæði 1. mgr. 11. gr. sömu laga ætti við um greiðslur C ehf. til leyfisbeiðandans A vegna kaupa félagsins á kröfum á hendur D ehf. og jafnframt að þar sem þær greiðslur gætu ekki talist lögmæt úthlutun fjármuna C ehf. yrði að telja að um hefði verið að ræða slíka úthlutun sem um ræði í 2. mgr. 11. gr. laganna. Greiðslurnar hefðu því með réttu átt að teljast til tekna samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laganna umrætt gjaldár.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum varðandi þýðingu lögmætisreglunnar að því er varðar þá niðurstöðu að beita 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 í stað 2. mgr. sömu greinar. Meðal annars varði málið hvort stjórnvaldi sé heimilt, án þess að styðjast við lögskýringargögn eða réttarheimildir, að fella málsatvik undan gildissviði skýrs og ótvíræðs orðalags skattalagaákvæðis og fella þau þess í stað undir annað eldra ákvæði sömu laga með íþyngjandi niðurstöðu fyrir skattaðila. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar leiði til þess að stjórnvöldum beri ekki skylda til að gæta málefnalegra sjónarmiða við töku íþyngjandi ákvarðana, annars vegar þar sem stjórnvöld geti borið fyrir sig í dómsmáli um gildi stjórnvaldsákvörðunar önnur sjónarmið en notuð hafi verið til að rökstyðja ákvörðunina í öndverðu og hins vegar að ólíkri aðferðarfræði sé beitt við notkun 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 án nokkurs rökstuðnings. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að farið hafi verið út fyrir málsástæður aðila í málinu varðandi niðurstöðu um að 2. mgr. 57. gr. ætti ekki við. Að auki hafi málsmeðferð verið stórlega ábótavant um meðferð sönnunargagna og samningu dóms. Landsréttur víki ekkert að því hvers vegna málsatvik sem leyfisbeiðendur hafi byggt á, er vitni í málinu og skrifleg sönnunargögn staðfestu, hafi ekki verið lögð til grundvallar niðurstöðu. Loks er byggt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.