Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-108

A (Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)
gegn
B ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Starfslok
  • Uppsögn
  • Riftun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 11. júní 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. maí sama ár í máli nr. 76/2024: A gegn B ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um laun út þriggja mánaða uppsagnarfrest í kjölfar riftunar gagnaðila á ráðningarsamningi hans. Leyfisbeiðandi telur riftunina hafa verið ólögmæta.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Gagnaðili byggði á því að heimilt hefði verið að segja leyfisbeiðanda upp störfum sem framkvæmdastjóra félagsins án fyrirvara þar sem hann hefði brotið verulega af sér í starfi auk þess sem honum hefði verið gefin munnleg áminning. Í dómi Landsréttar var ekki talið sannað að leyfisbeiðanda hefði verið veitt áminning fyrir uppsögn. Þar var hins vegar lagt til grundvallar að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn samningsskyldum sínum er lotið hefðu að gerð rekstraráætlunar, samningi um leigu á bifreið fyrir utanaðkomandi aðila og með misbresti á að skila inn upplýsingum um úttektir á veitingastað félagsins. Þá lægi einnig fyrir að leyfisbeiðandi hefði brotið alvarlega gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart gagnaðila með því að nýta tölvubúnað félagsins til að afla sér ávinnings í formi rafmyntar. Var því fallist á að leyfisbeiðandi hefði verulega vanefnt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningnum og gagnaðila því heimilt á grundvelli ákvæða samningsins að rifta honum án frekari fyrirvara eða aðvörunar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé röng, bæði þar sem forsendur dómsins séu rangar og málavextir misskildir. Þá sé vikið frá grundvallarreglum í vinnurétti um áminningar og rétt starfsmanns til úrbóta. Niðurstaðan sé jafnframt í andstöðu við meginreglur kröfu- og samningaréttar um að ekki sé unnt að vísa í forsendur sem komi í ljós eftir að samningi hafi verið rift. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Dómur í málinu hafi verulegt almennt gildi um hvenær víkja megi starfsmanni fyrirvaralaust frá störfum án launa í uppsagnarfresti. Nauðsynlegt sé að fá umfjöllun Hæstaréttar um gildi áminningar í vinnurétti við fyrirvaralausa uppsögn.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.