Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-178

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Kristjáni Markúsi Sívarssyni (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sérstaklega hættuleg líkamsárás
  • Sönnun
  • Fyrning sakar
  • Refsiákvörðun
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. nóvember 2025 leitar Kristján Markús Sívarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. október sama ár í máli nr. 959/2024: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist með ofbeldi að brotaþola og kastað óþekktum hlut í höfuð hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut opið sár á höfði, höfuðkúpubrot og mar á heila. Talið var sannað að við þá atlögu hefði brotaþoli fallið í gólfið og brotnað upp úr hægri augntönn hennar. Leyfisbeiðandi var jafnframt sakfelldur fyrir vopna- og fíkniefnalagabrot og honum gert að sæta fangelsi í eitt ár og fjóra mánuði. Landsréttur taldi þær sakargiftir á hendur leyfisbeiðanda að brotaþoli hefði fallið í gólfið við höfuðhöggið og við það brotnað upp úr tönn hennar ekki fá viðhlítandi stuðning í framburði brotaþola og vitnis og sýknaði leyfisbeiðanda af þeim. Dómur héraðsdóms hvað þennan ákærulið varðaði var að öðru leyti staðfestur. Þá var leyfisbeiðandi sýknaður af sakargiftum samkvæmt vopna- og fíkniefnalögum á grundvelli fyrningar. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin 12 mánaða fangelsi.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu um hvaða áhrif annmarkar á rannsókn lögreglu eigi að hafa á úrlausn máls. Landsréttur hafi talið að annmarkar hafi verið á rannsókn lögreglu en ekki útskýrt nánar hverjir þeir væru eða hvernig þeir gætu þrátt fyrir allt ekki haft áhrif á niðurstöðu. Auk þess telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu ranga og vísar í þeim efnum einkum til misræmis í framburði brotaþola og vitna. Loks telur leyfisbeiðandi að refsing hans hafi ekki verið ákveðin í samræmi við dómaframkvæmd.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.