Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-118
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Byggingarstjóri
- Skaðabætur
- Starfsábyrgðartrygging
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 26. júní 2025 leitar Superior slf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í máli nr. 241/2024: Superior slf. gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Í málinu krafðist leyfisbeiðandi skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna ætlaðra mistaka byggingarstjóra sem leyfisbeiðandi telur hafa leitt til þess að tiltekin bygging varð 49 cm hærri en heimilt var samkvæmt byggingarleyfi. Hann hafi orðið fyrir tjóni vegna mistakanna sem falist hafi í kostnaði við lækkun hennar.
4. Í dómi héraðsdóms var ekki fallist á að byggingarstjórinn hefði sýnt af sér gáleysi þegar hann kannaði ekki sérstaklega hvort hæðarkvóti sem merktur var á gangstétt við nálægt hús og notaður var til viðmiðunar við framkvæmdina væri réttur. Jafnframt var það ekki metið byggingarstjóranum til sakar að fylgjast ekki sérstaklega með því að vinna við gerð og frágang jarðvegspúða og botnplötu bílskúrs væri í samræmi við uppgefinn hæðarkvóta. Skilyrði til greiðslu bóta úr tryggingu byggingastjórans var því ekki talin vera fyrir hendi og gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms en gerði athugasemd við útreikning leyfisbeiðanda á ætluðu tjóni.
5. Leyfisbeiðandi telur að málið hafi fordæmisgildi um ábyrgð byggingarstjóra við hæðarsetningu mannvirkis. Í málinu hafi hann sýnt fram á að mistök við hæðarsetningu hafi leitt til þess að þurft hafi að láta lækka mannvirkið. Sú niðurstaða að hann þurfi að bera allt tjónið sjálfur sé bæði ósanngjörn og andstæð ákvæðum byggingarlaga sem sett hafi verið til verndar húsbyggjendum vegna ófullnægjandi vinnubragða sérfræðinga og sem feli meðal annars í sér skyldu til þess að kaupa tryggingar og standa straum af eftirliti með tilheyrandi kostnaði. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda hafi kostnaður við úrbætur numið um 17 milljónum króna. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.