Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-50
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lausafjárkaup
- Aðild
- Samningur
- Bifreið
- Vanefnd
- Riftun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 3. apríl 2023 leita Ingimar Sigurðsson og I.B./Nýja bílahöllin ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. mars 2023 í máli nr. 84/2022: Ingimar Sigurðsson og I.B./Nýja bílahöllin ehf. gegn Ideal Company ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila vegna viðskipta með bifreið. Gagnaðili höfðaði mál á hendur leyfisbeiðendum og krafði þá um skaðabætur vegna riftunar á kaupunum sem námu innborgun hans inn á kaupverð bifreiðarinnar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðendum um greiðslu 1.500.000 króna skaðabóta. Í dómi Landsréttar var rakið að af samskiptum aðila væri ljóst að bindandi kaupsamningur um bifreiðina hefði komist á 26. nóvember 2019. Þá hefði fyrsta greiðsla kaupverðsins verið innt af hendi 6. desember sama ár með 1.500.000 króna innborgun gagnaðila á reikning leyfisbeiðandans I.B./Nýju bílahallarinnar ehf. Landsréttur hafnaði málsástæðum leyfisbeiðenda um aðildarskort til sóknar og varnar. Í dóminum var vísað til þess að ekki hefði verið samið sérstaklega um gjalddaga greiðslna eða afhendingu bifreiðarinnar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þótt gagnaðili hefði ekki greitt eftirstöðvar kaupverðsins innan þeirra tímamarka sem leyfisbeiðendur settu fram einhliða, hefði ekki legið fyrir dráttur á greiðslu sem teldist til verulegrar vanefndar þannig að riftun væri þeim heimil. Í eftirfarandi sölu bifreiðarinnar til þriðja aðila hefði falist veruleg vanefnd. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðendum hefði borið að endurgreiða gagnaðila þá fjárhæð sem greidd hefði verið inn á kaupverðið ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Leyfisbeiðendur voru ekki taldir hafa sýnt fram á að þeir hefðu öðlast rétt til að halda nokkru eftir af þeirri greiðslu sem þeir höfðu móttekið.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Telja þeir héraðsdómara hafa beitt orðfæri sem sýni að dómarinn hafi ekki litið hlutlaust á málið. Þá telja þeir Landsrétt hafa farið út fyrir málsástæður gagnaðila. Þannig hafi í forsendum dómsins komið fram að aðilar hafi ekki samið um gjalddaga eða afhendingu bifreiðarinnar. Aðilar hafi þó ekki byggt á því heldur hafi leyfisbeiðendur byggt á því að greiðslan hafi fallið í gjalddaga við kaupsamning. Enn fremur hafi verið röng aðild til sóknar og röngum aðila verið stefnt þar sem bifreiðasalanum og bifreiðasölunni hafi verið stefnt en ekki seljanda. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.