Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-36
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Opinberir starfsmenn
- Starfsumsókn
- Hæfi
- Rannsóknarregla
- Andmælaréttur
- Meðalhóf
- Réttmætisregla
- Lögmætisregla
- Rökstuðningur
- Stjórnsýsla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 20. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 64/2023: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaða- og miskabætur úr hendi gagnaðila vegna ákvörðunar ráðherra um að hætta við að skipa í embætti forstjóra stofnunarinnar B og auglýsa það að nýju laust til umsóknar. Leyfisbeiðandi hafði sótt um stöðuna og verið eini umsækjandinn sem uppfyllti hæfnisþætti starfsins og hún því ein boðuð í viðtal.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Lagt var til grundvallar að þegar ráðherra tilkynnti leyfisbeiðanda að ekki yrði skipað í embættið hefði hann bundið enda á það stjórnsýslumál sem hófst með auglýsingu og með því tekið ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað var til þess að hvorki í lögum nr. […] um stofnunina B né öðrum lögum kæmi fram á hvaða sjónarmiðum ætti að byggja við skipun í embættið. Ráðherra hefði því haft ákveðið svigrúm við mat á hæfni umsækjenda. Þá nyti stjórnvald sem færi með vald til að skipa í embætti sams konar svigrúms þegar tekin væri ákvörðun um að skipa ekki í auglýst embætti og auglýsa það þess í stað á ný. Skylda stjórnvalds til að skipa einhvern úr hópi umsækjenda þegar umsóknarfrestur væri liðinn yrði hvorki leidd af lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins né öðrum réttarreglum. Landsréttur vísaði til þess að rökstuðningur fyrir ákvörðun ráðherra bæri með sér að hún hefði byggst á því mati að leyfisbeiðandi félli ekki nægilega vel að þeim kröfum sem gera yrði til hæfni forstjóra nýrrar stofnunar samkvæmt lögum nr. […]. Talið var að ákvörðun ráðherra um að auglýsa embættið að nýju hefði hvorki verið tekin á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða né að meðferð ráðuneytisins við undirbúning hennar hefði verið í andstöðu við lög. Þá féllst Landsréttur ekki á að rökstuðningur ráðherra hefði verið í ósamræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga eða ráðherra hefði bakað gagnaðila bótaskyldu með ólögmætri ákvörðun.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og hafi meðal annars fordæmisgildi um réttarstöðu umsækjenda um embætti hjá ríkinu. Að auki hafi málið fordæmisgildi um málsmeðferð og lögmæti ákvarðana veitingarvaldshafa, meðal annars um beitingu stjórnsýslulaga og ákvæða laga nr. 70/1996 við veitingu embætta. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til. Dómsniðurstaðan samræmist ekki efni stjórnvaldsákvörðunar gagnaðila eins og hún hafi verið rökstudd og sé niðurstaðan jafnframt í trássi við dómaframkvæmd. Þá feli hún í sér að gagnaðila sé heimilt eftir að mat hæfnisnefndar liggi fyrir að leggja sérstaka áherslu á tilteknar huglægar hæfniskröfur jafnvel þótt þær hefðu lítið vægi haft í mati hæfnisnefndar. Það gangi í berhögg við dómaframkvæmd og bjóði upp á að veitingarvaldshafi misbeiti valdi sínu.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.