Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-61

A (Ómar Örn Bjarnþórsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Rannsókn sakamáls
  • Gæsluvarðhald
  • Tilhögun gæsluvarðhalds
  • Miskabætur
  • Fyrning

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 26. apríl 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 156/2022: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni en telur vafa leika á um hvort skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti á tímabilinu […] til […]. Leyfisbeiðandi byggir annars vegar á því að honum hafi, frá […]. september til […], verið haldið í gæsluvarðhaldi að ósekju vegna rannsóknar lögreglu á broti sem hann var ekki ákærður eða dæmdur fyrir. Hins vegar vísar hann til þess að hann hafi í níu daga á gæsluvarðhaldstímanum verið vistaður í fangaklefa á lögreglustöð […] við ómannúðlegar og með öllu óviðunandi aðstæður. Þá hafi hann verið vistaður í fangageymslum lögreglu lengur en heimilt hafi verið samkvæmt 4. mgr. 3. gr. þágildandi laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga.

4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að rannsókn á fíkniefnalagabrotum sem hann hefði verið sakfelldur fyrir með dómi Landsréttar […] hefði verið grundvöllur gæsluvarðhalds hans og taldi skilyrði 1. og. 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fyrir greiðslu miskabóta því ekki uppfyllt. Þá taldi Landsréttur bótakröfu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 150/1993 vegna vistunar leyfisbeiðanda í fangageymslum lögreglu í níu daga meðan á gæsluvarðhaldi hans stóð fyrnda þar sem fyrningarfrestur kröfunnar hefði tekið að líða þegar gæsluvarðhaldsvist hans lauk árið 2010.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um upphafstíma fyrningar í málum sem varða kröfu um bætur vegna rannsóknaraðgerða lögreglu. Þannig fyrnist krafa samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 á tíu árum frá því að tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið. Leyfisbeiðandi telur að skilgreina þurfi með skýrum hætti hvort upphafstími fyrningarfrests miðist við það tímamark þegar gæsluvarðhaldsvist einstaklings ljúki eða hvort til greina komi að miða hann við síðara tímamark. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans, kröfu um bætur vegna ólögmætrar frelsisskerðingar sem hann sætti í 22 daga. Loks byggir hann á því að það sé bersýnilega rangt að fyrningarfrestur geti hafist án þess að hann hafi fengið upplýsingar um hvað hann yrði ákærður fyrir, hvort hann yrði sakfelldur og þá fyrir hvað og hversu langa refsingu hann fengi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.