Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-92
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Fæðingarorlof
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 30. apríl 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 41/2024: A gegn B ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi hóf störf hjá gagnaðila í apríl 2022 og deila málsaðilar um hvort gagnaðila hafi verið heimilt að segja henni upp störfum 3. júní sama ár. Ágreiningslaust er að leyfisbeiðandi hafði tveimur dögum fyrr greint samstarfskonu sinni frá því að hún væri barnshafandi. Aðila greinir á um hvort uppsögnin hafi brotið í bága við 50. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof.
4. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Landsrétti með vísan til forsendna kom fram að miða yrði við að upplýsingar sem leyfisbeiðandi veitti samstarfskonu sinni, sem gegndi sömu stöðu og hún í versluninni og var því ekki yfirmaður hennar, teldist ekki tilkynning til vinnuveitanda í skilningi 1. mgr. 50. gr. laga nr. 144/2020. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið sé afar mikilvægt fyrir alla launþega og hafi fordæmisgildi um hvenær tilkynning starfsmanns um þungun teljist nægilega komin til vitneskju vinnuveitanda. Í málinu liggi fyrir að uppsögn á starfskröftum leyfisbeiðanda hafi ekkert haft með ytri aðstæður eða almennan rekstur fyrirtækisins að gera. Þvert á móti hefði verið auglýst eftir starfsfólki á þessum tíma. Því hafi uppsögnin aðeins beinst að leyfisbeiðanda og að hennar mati einungis vegna ástands hennar enda hefði hún aldrei fengið tiltal eða áminningu vegna starfa sinna. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda en greiðslur úr fæðingarorlofssjóði taki mið af tekjum hennar fyrir fæðingu. Að lokum sé málskostnaðarákvörðun Landsréttar í málinu í andstöðu við það sem almennt tíðkist þar sem launþegum sé nær undantekningarlaust veitt svigrúm til að láta reyna á réttindi sín án þess að það hafi mikil áhrif á fjárhag þeirra.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.