Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-32
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnsýsla
- Rannsóknarregla
- Skip
- Skipaskrá
- Aðild
- Kröfugerð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 13. mars 2023 leitar Samgöngustofa leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar sama ár í máli nr. 467/2022: Seatrips ehf. gegn Samgöngustofu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta á rætur að rekja til þess að leyfisbeiðandi synjaði erindi gagnaðila um að skráningu á skipinu Amelía Rose yrði breytt í skipaskrá þannig að það teldist gamalt skip en ekki nýtt. Ákvörðun leyfisbeiðanda var staðfest með úrskurði innviðaráðherra. Gagnaðili krafðist þess í málinu að hrundið yrði stjórnvaldsákvörðun leyfisbeiðanda 30. júlí 2021, sem staðfest hefði verið með úrskurði innviðaráðherra 5. maí 2022. Þá krafðist hann þess að lagt yrði fyrir leyfisbeiðanda að skrá skipið sem gamalt skip í skipaskrá enda hefði kjölur þess verið lagður fyrir 1. janúar 2001 og teldist það því gamalt í skilningi 2. gr. reglugerðar nr. 666/2001 um öryggi í farþegaskipum í innanlandssiglingum.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var úrskurður innviðaráðherra felldur úr gildi en leyfisbeiðandi að öðru leyti sýknaður af kröfum gagnaðila. Landsréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd hefði verið litið svo á að ekki væri þörf á því að krefjast ógildingar á ákvörðun lægra setts stjórnvalds þegar æðra stjórnvald hefði kveðið upp úrskurð í viðkomandi stjórnsýslumáli. Því til samræmis var litið til þess hvort efni væri til þess að ógilda úrskurð ráðherra. Landsréttur vísaði til þess að óvíst væri við hvaða áfanga við smíðina skráð smíðaár væri miðað í haffærisskírteini og öðrum gögnum frá siglingamálayfirvöldum í Mexíkó, þar sem skipið var smíðað. Svör þeirra við fyrirspurnum leyfisbeiðanda yrðu enn fremur að teljast óljós og misvísandi. Lagði Landsréttur til grundvallar að enn væri ekki að fullu upplýst hvenær kjölur skipsins hefði verið lagður. Því væru ekki efni til að fallast á kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda yrði gert að breyta skráningu skipsins. Hins vegar var fallist á það með gagnaðila að rannsókn leyfisbeiðanda og innviðaráðuneytisins hefði verið ófullnægjandi.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir stjórnsýsluframkvæmd, rannsóknarreglu og sönnunarreglur í stjórnsýslurétti. Hann telur að með dómi Landsréttar séu gerðar ríkari kröfur til hans um rannsókn máls við endurskoðun ákvörðunar um skráningu en áður hafi þekkst. Lagt sé á leyfisbeiðanda að afsanna fullyrðingar gagnaðila sem séu í ósamræmi við fyrri opinbera skráningu í Mexíkó og hjá leyfisbeiðanda. Að auki sé ekki tekið tillit til málshraðareglunnar og hversu lengi málið eigi að vera til rannsóknar þegar fyrir liggi ákvörðun og ekkert komið fram sem staðfesti að sú ákvörðun hafi verið röng. Loks geti það haft mikil áhrif á starfsemi leyfisbeiðanda og annarra ef ekki er unnt að reiða sig á staðhæfingar erlendra stjórnvalda við ákvarðanatöku, sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því niðurstaða hins áfrýjaða dóms sé bersýnilega röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á en jafnframt að á dómi Landsréttar kunni að vera ágallar, hvað varðar aðild málsins og kröfugerð, þannig að rétt sé að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.