Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-126
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Hlutafélag
- Samkeppni
- Ógilding samnings
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 5. apríl 2019 leitar HS Orka hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í málinu nr. 409/2018: HS Veitur hf. gegn HS Orku hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. HS Veitur hf. leggjast gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að gildi viðauka sem þeir gerðu árið 2011 við samning frá 2009. Í viðaukanum var mælt fyrir um að gagnaðili tæki að sér að greiða 60% af hækkun á tilteknum lífeyrisskuldbindingum leyfisbeiðanda sem rekja mætti til svonefndrar eftirmannsreglu samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Héraðsdómur taldi viðaukann bindandi milli aðila en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu í fyrrnefndum dómi. Vísaði Landsréttur til þess að gagnaðila hafi verið skipt út úr Hitaveitu Suðurnesja hf. á árinu 2008 samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en það félag hafi upp frá því borið heiti leyfisbeiðanda. Í skiptingaráætlun hafi ekki verið ákveðið að gagnaðili tæki að einhverju leyti á sig greiðsluskyldu vegna umræddra lífeyrisréttinda, en samkvæmt 2. mgr. 133. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 2/1995 skyldu skuldbindingar sem félag tæki á sig taldar nákvæmlega í skiptingaráætlun og væri hún endanleg. Hafi því skylda sem þessi ekki hvílt á gagnaðila áður en viðaukinn var gerður 2011. Ákvæði viðaukans um þetta hafi leitt af sér niðurgreiðslu á kostnaði félags í samkeppnisrekstri með fé félags sem nyti sérleyfis til starfsemi sinnar og væri háð gjaldskrá sem ætti að tryggja félaginu tekjur til að mæta öllum rekstrarkostnaði. Niðurgreiðsla þessi raskaði samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og bryti gegn 14. gr. sömu laga. Var samningur um þetta sem fólst í viðaukanum því metinn ógildur samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna.
Leyfisbeiðandi byggir á því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið farið að lögum við skipun tveggja af dómurunum sem þar fóru með það. Af þeim sökum hafi ekki verið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að skipan dómstóls hafi verið ákveðin með lögum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18, og verði því að ómerkja dóm Landsréttar. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, það varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum fyrirliggjandi gögnum verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitaefni á sviði félagaréttar, samkeppnisréttar og samningaréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.